Innlent

Húsaþyrping risin á Hellnum

Húsin eru flutt inn frá Noregi og minna frekar á gömul hús í eldri kaupstöðum landsins en á hefðbundin sumarhús íslensk.Fréttablaðið/Stefán
Húsin eru flutt inn frá Noregi og minna frekar á gömul hús í eldri kaupstöðum landsins en á hefðbundin sumarhús íslensk.Fréttablaðið/Stefán

Tíu hús eru seld í nýrri húsaþyrpingu sem risin er á Hellnum. Þegar hafa tólf hús verið reist en grunnar hafa verið lagðir að sautján húsum og verður lokið við að byggja þau í sumar, að sögn Búa Kristjánssonar verkefnastjóra framkvæmdanna.

Búi segir norska fjárfesta hafa keypt húsin haustið 2008, skömmu fyrir hrun. Þau voru þá komin í eigu Landsbankans sem hafði eignast þau eftir gjaldþrot fyrri eigenda.

Uppi voru um miðjan áratuginn áform um að reisa á Hellnum 200 íbúðahúsa þorp, frístundabyggð sem átti að heita „Plássið undir jökli,“ og áttu þar samkvæmt lýsingum að vera lista- og handverksgallerí, verslanir og hótel, allt sem vera þyrfti til staðar í „íbúðarvænu þorpi“.

Að sögn Búa eru slíkar stórframkvæmdir ekki á dagskrá nú og munaði meira að segja litlu að eigendurnir hættu við að ljúka við húsin í ljósi slæmra efnahagsaðstæðna. Skriður komst svo á málin síðasta vor og var afráðið að ljúka við þau sautján hús sem hafist hafði verið handa við. Síðasta haust kom svo kippur í sölu húsanna sem hafa verið seld á verðbilinu 12 til 16 milljónir króna eftir stærð. „Það er bara þokkalegur áhugi á þessu,“ segir Búi sem segir tvo til þrjá vinna að staðaldri við framkvæmdir og frágang við húsin en allt að sjö til átta vinni þarna þegar flestir séu á svæðinu. - sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×