Innlent

Vill ekki verða þræll í Nepal

Hún er 22 ára og hefur búið á Íslandi í eitt ár. Hún talar ekki íslensku en skilur hana að miklu leyti. Hún hefur þegar setið eitt íslenskunámskeið. Fréttablaðið/valli
Hún er 22 ára og hefur búið á Íslandi í eitt ár. Hún talar ekki íslensku en skilur hana að miklu leyti. Hún hefur þegar setið eitt íslenskunámskeið. Fréttablaðið/valli
Lífi mínu er hreinlega lokið ef ég fer aftur heim. Þar bíða mín gamlir karlar og ömurlegar aðstæður – í raun bara þrældómur,“ segir Priyanka Thapa, 22 ára gamall Nepalbúi sem búið hefur á Íslandi síðastliðið ár.

„Meðan pabbi og stóri bróðir voru á lífi hafði ég öll tækifæri til að mennta mig og giftast og hefði orðið fjölskyldu minni til sóma. En nú hefur heimurinn snúist í algjöra andhverfu sína á örskotsstundu.“ Toppnemandi
Á milli vonar og ótta Priyanka vonast til að fá dvalarleyfi á Íslandi. Ef hún fær það ekki þarf hún að snúa aftur heim til Nepal og giftast ókunnugum manni.Fréttablaðið/valli
Priyanka kom til landsins til að vinna sem barnfóstra eða au pair hjá Þórólfi Gunnarssyni framkvæmdastjóra og Önnu Láru Steingrímsdóttur lyfjafræðingi. Þau búa í Vogum á Vatnsleysuströnd og eru með sex börn á heimilinu svo í nógu er að snúast.

Þórólfur og Anna Lára buðu Priyönku að stunda nám við verk- og raunvísindadeild Háskólabrúar Keilis, meðfram barnfóstrustarfinu, sem hún þáði með þökkum. Námið hefur gengið vonum framar og er hún meðal efstu nemenda, jafnvel þótt kennslan sé öll á íslensku.

Priyanka stefndi á frekari menntun en örlögin hafa gripið svo í taumana að nú gæti hún þurft að snúa aftur heim til Nepal. Og þar bíður hennar svört framtíð.

Priyanka kemur úr lágstétt í Nepal, er yngst fjögurra systkina, alin upp hjá einstæðri móður. Eina leið fjölskyldu hennar til að komast af er að brúðgumi greiði lífsviðurværi hennar. Og nú þarf Priyanka að velja á milli. Hefur sótt um dvalarleyfi
Priyanka fékk vistráðningu hjá íslenskum yfirvöldum þegar hún kom til landsins. Það leyfi gildir í eitt ár og er runnið út. Hún hefur sótt um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Umsóknin var lögð inn í Útlendingastofnun í nóvember en Priyanka fær væntanlega ekki svar fyrr en í janúar eða febrúar. Hún fær þó að dvelja í landinu á meðan umsóknin er til meðferðar í kerfinu. Samkvæmt íslenskum lögum má veita útlendingi dvalarleyfi ef hægt er að sýna fram á að rík þörf sé á vernd, til dæmis vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Erfitt líf í Nepal
„Faðir minn yfirgaf fjölskylduna þegar ég var tveggja ára og skildi móður mína eftir eina með fjögur börn. Hann skildi ekkert eftir handa okkur. Í Nepal geta menn gifst eins oft og þeir vilja en konurnar mega það hins vegar ekki. Þær verða að lifa einar með börnum sínum það sem eftir er. Mamma og stóri bróðir minn framfleyttu fjölskyldunni, þau voru bæði í vinnu. En svo lést hann í slysi árið 2008 og þá breyttist allt,“ segir Priyanka.

Í Nepal lauk Priyanka námi sem samsvarar tveimur árum í menntaskóla hér á landi. Fæstar stúlkur í Nepal fá sömu tækifæri til menntunar. Priyanka nýtti sér tækifærið hins vegar til fulls. Þegar bróðir hennar dó vildi hún komast burt frá sorginni og í gegnum sameiginlega kunningja komst hún í kynni við Þórólf og Önnu Láru og lagði upp í langferðina til Íslands. Fjölskyldan arflaus„Nú í maí á þessu ári varð faðir minn bráðkvaddur eftir heilablóðfall. Það hefur mikil áhrif á fjölskylduna því þótt hann hafi ekki verið til staðar fyrir okkur skiptir það miklu máli í nepölsku samfélagi hver faðir manns er og hvað hann gerir. Börn úr minni stétt eiga ekki mikla framtíðarmöguleika ef faðir þeirra fellur frá,“ segir Priyanka.

Fjölskylda Priyönku fékk engan arf þegar faðir hennar lést. Móðir hennar er 63 ára og á orðið erfitt með vinnu. Eftirlifandi bróðir hennar er fatlaður eftir slys og getur ekki unnið. Það hefur því verið hart í ári hjá fjölskyldunni frá því að elsti bróðirinn lést. Nú, eftir fráfall föður hennar, er það orðið hlutverk Priyönku að giftast manni sem getur séð um að framfleyta fjölskyldunni. Mamma giftist ellefu áraÞað er nánast alsiða að fjölskyldur ákveði ráðahag barna sinna í Nepal. Slíkt tíðkast eða hefur tíðkast í mörgum samfélögum í aldanna rás, þar á meðal á Íslandi. Hægfara breyting hefur þó átt sér stað í Nepal á undanförnum árum og hefur fólk, þó aðallega í efri stéttum, meira um það að segja hverjum það giftist. Þá giftist fólk einnig oftar á milli stétta en slíkt hefur verið fátítt þar í landi enda stéttaskiptingin gríðarleg.

„Mamma var ellefu ára þegar hún giftist pabba, sem var tvítugur. Þau höfðu aldrei hist áður en þau giftust. Því miður eru slík hjónabönd allt of algeng í Nepal. Það þarf ekki annað en að fara rétt út í sveitirnar til að finna fjölskyldur þar sem er verið að gifta börn. Þá eru ungar stúlkur gefnar eldri mönnum og þær fá engin tækifæri til frekari menntunar. Þær eiga bara að sjá um börnin og heimilið. Þær fá ekki einu sinni að fara út að vinna. Ég held að um fjörutíu prósent stúlkna í landinu séu í þessari stöðu,“ segir Priyanka. Fékk skólastyrk eftir fegurðarsamkeppniStéttaskipting í Nepal er mikil og fátæktin gríðarleg. Talið er að meira en helmingur Nepala lifi undir fátæktarmörkum. Þá eru tveir þriðju hlutar kvenna ólæsir og helmingur karla. Þar sem Priyanka ólst upp hjá einstæðri móður átti hún ekki möguleika á öðru en grunnnámi. Hún tók hins vegar þátt í fegurðarsamkeppni barna þegar hún var tólf ára og hafði sigur úr býtum. Fyrir vikið fékk hún skólastyrk og gat farið í frekara nám.

Priyanka er smávaxin, með dökkt sítt hár og svarbrún augu. Hún er feimin og auðmjúk. Hún ólst upp í Katmandú, höfuðborg Nepals. Um 800 þúsund manns búa í borginni en um ein og hálf milljón ef fólkið í nærliggjandi sveitum er talið með. Priyanka er yngst fjögurra systkina. Eldri systir hennar vinnur úti í láglaunastarfi en hefur ekki gifst þar sem fjölskyldan gat ekki greitt með henni heimanmund. Þá er hún komin á þann aldur að erfitt er að finna rétta manninn fyrir hana.

„Mamma hefur enga menntun og þurfti því að vinna frá morgni til kvölds í verslun til að sjá fyrir okkur. Ég sá því ekki mikið af henni þegar ég var yngri. Ég var hins vegar alltaf í skólanum. Ég vissi að þar sem mamma var alltaf að vinna þurfti ég að gera eitthvað á móti. Ég lagði því hart að mér í skólanum en hjálpaði líka til við heimilisstörfin. Skólinn gekk líka vel og ég fékk alltaf góðar einkunnir,“ segir Priyanka. Matarlaus í skólanumPriyönku gekk vel eftir grunnnámið og tók meðal annars að sér kennslu hjá yngri krökkum í aukavinnu. En lífið var ekki alltaf dans á rósum. „Ég átti ekki marga vini í Katmandú. Þegar ég var yngri var ég alltaf að læra eða að hjálpa mömmu, svo ég átti ekki margar vinkonur. Við máttum heldur ekki tala við strákana sem voru á svipuðum aldri. Þegar ég hélt svo áfram í skólanum voru þar krakkar úr annarri stétt og það var ekki alltaf auðvelt að vingast við þá. Krakkar með sama bakgrunn voru mikið saman og flestir komu þeir úr venjulegu umhverfi, þar sem báðir foreldrar voru til staðar og fjölskyldurnar áttu peninga. Krakkarnir komu til dæmis flestir með nesti en ég gat ég aldrei komið með neitt og þurfti að horfa upp á þau borða,“ segir Priyanka. Borðar nesti með vinum sínum„Þegar ég kom til Íslands var eins og ég væri að koma úr fortíðinni. Það er allt öðruvísi hér en í Nepal, til dæmis eru mannréttindi virt hér. Þetta var eins og að koma úr helvíti og fara til himna,“ segir Priyanka, sem segist hafa orðið fyrir menningarsjokki fyrst eftir komuna hingað. „Það var svo margt sem ég þurfti að læra og fjölskyldan mín, Þórólfur, Anna Lára og börnin þeirra, hafa hjálpað mér með svo margt. Ég kunni til dæmis ekki að borða með hníf og gaffli. Þau hafa í raun kennt mér allt,“ segir Priyanka hlæjandi. „Allir á Íslandi hafa í raun tekið mér opnum örmum, ekki bara fjölskyldan heldur líka allir í skólanum. Þetta hefur allt verið svo auðvelt því ég fæ svo mikla hjálp frá öllum.“

Priyanka segist hafa eignast fullt af vinum í skólanum og það sem meira er – þá borðar hún nesti með þeim. „Þeim er líka alveg sama hvaðan ég kem, hver fjölskylda mín er og hvort ég eigi föður eða ekki. Það taka mér allir opnum örmum – Íslendingar eru allir mjög opnir.“ Á milli vonar og óttaPriyanka saknar stóra bróður síns meira en orð fá lýst. Hann hvatti hana alltaf til dáða og vildi að hún yrði sér úti um menntun. „Ef hann hefði ekki dáið væri ég ekki í þessum sporum,“ segir hún. „Hann vildi mér allt það besta og sagði að framtíð mín væri björt.“

Priyanka bíður nú á milli vonar og ótta um að fá dvalarleyfi. Ef hún fær það ætlar hún að búa áfram hjá Þórólfi og Önnu Láru og fara í frekara nám. Þá ætlar hún að fá sér aukavinnu svo hún geti sent peninga heim. Ef hún fær ekki landvistarleyfið þarf hún að fara heim til Nepal og ganga í hjónaband til að bjarga fjölskyldunni. Henni hugnast ekki slíkt líf en vill þó geta aðstoðað móður sína sem er henni allt. Tíu þúsund krónur bjarga fjölskyldunni„Mamma vinnur tólf til fjórtán tíma á dag og fær um sjö þúsund íslenskar krónur á mánuði í laun. Við búum í tveggja herbergja íbúð og borgum fimm þúsund í leigu,“ útskýrir Priyanka. „Ég vil að sjálfsögðu geta hjálpað henni. Hún hefur gefið okkur systkinum allt sitt og séð til þess að ég gat fengið menntun, ferðast til annars lands og lært önnur tungumál. En ég vil gera eitthvað úr lífi mínu en ekki giftast einhverjum manni þó að hann hjálpi fjölskyldu minni fjárhagslega. Ef ég get sent 10.000 krónur á mánuði heim er fjölskyldunni borgið. Þá get ég haldið áfram með líf mitt og gert það sem mig langar til – sem er að fá frekari menntun.“


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×