Innlent

Frekari rannsóknir verði á Drekasvæði

Guðni A. Jóhannesson
Guðni A. Jóhannesson

Æskilegt væri að bæta rannsóknir á Drekasvæðinu áður en farið verður í útboð á leit og vinnslu olíu á ný, að mati sérfræðinga erlendra olíufyrirtækja. Þetta kom fram í jólaávarpi Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra til starfsmanna Orkustofnunnar.

Tvö fyrirtæki sem sótt höfðu um leyfi til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á svæðinu drógu tilboð sín til baka síðastliðið haust. Í kjölfarið voru teknar upp viðræður við fyrirtæki sem sendu inn tilboð, fyrirtæki sem lögðu í greiningarvinnu en sendu ekki inn tilboð, og fyrirtæki sem ekki höfðu áhuga á útboðinu, segir Guðni í samtali við Fréttablaðið.

„Við erum að reyna að skapa okkur sem besta mynd af því hvernig við eigum að haga framhaldinu. Við ætlum ekki að hlaupa í nýtt útboð fyrr en við eigum von á jákvæðum undirtektum," segir Guðni. Hann tekur þó fram að komi fyrirtæki og lýsi áhuga á ákveðnum hluta svæðisins verði hægt að setja þau í útboð.

Starfsmenn Orkustofnunar áttu nýverið fundi með sérfræðingum rúmlega tíu fyrirtækja í olíuiðnaðinum, segir Guðni. Rætt hafi verið við starfsmenn þróunardeilda olíufyrirtækja, en einnig sérfræðinga hjá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í að rannsaka vænleg svæði, og selja svo olíufyrirtækjum niðurstöður sínar.

Á þeim fundum kom fram að æskilegt væri að gera nákvæmari hljóðbylgjumælingar á hafsbotni á Drekasvæðinu, auk þess sem taka ætti sýni af hafsbotni til að reyna að sjá merki um kolvetni.

Guðni segir að með því hafi verið mælt með því að það net rannsókna sem nú sé fyrir hendi verði þétt. Viðræðum við áhugasöm fyrirtæki verði væntanlega haldið áfram á næstunni, meðal annars til að kanna hvernig hægt sé að gera viðbótarrannsóknir með sem minnstum tilkostnaði.

Guðni segir enga örvæntingu hafa gripið um sig á Orkustofnun þrátt fyrir að bæði fyrirtækin sem sóttu um leyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu hafi dregið tilboð sín til baka. Ástandið á fjármagnsmörkuðum sé þannig að eðlilegt sé að fara sér rólega.

„Tíminn vinnur með okkur, fyrr eða síðar fara menn á þetta svæði með meiri alvöru, en reynsla annarra þjóða sýnir að það getur tekið einhvern tíma," segir Guðni.-bj








Fleiri fréttir

Sjá meira


×