Innlent

Segir framgöngu Breta og Hollendinga óhugnanlega

Maris Riekstins.
Maris Riekstins.

Utanríkisráðherra Lettlands, Maris Riekstins, hefur tekið upp hanskann fyrir Ísland á alþjóðavettvangi. Í viðtali á Reuters segir hann viðbrögð ríkja gagnvart ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að vísa Icesave-lögum í þjóðaatkvæðagreiðslu, óhugnanlega enda var Ísland að fylgja sínum lýðræðisreglum.

Hann bendir á að það sé stjórnskrárvarinn réttur forseta Íslands að vísa lögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Riekstins segir hörð viðbrögð Hollands og Bretlands, meðal annars hótun um pólitíska einangrun Íslands, óhugnanlega og vekja upp spurningar varðandi rétt lýðræðisríkja til þess að framfylgja eigin lögum og stjórnarskrá.

„Eru þessi viðbrögð tilkominn vegna þess að Ísland er lítið ríki?" spyr Riekstins og bætir við: „Það er erfitt að ímynda sér að þessi sömu ríki hefðu hagað sér eins og þau gerðu gagnvart franska forsetanum."

Þá sagði hann að lokum að íslenska þjóðin myndi standa við sínar skuldbindingar, það væri skýrt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×