Lífið

Leikstýrir loðnum verum

Spike Jonze við tökur á Where the Wild Things Are ásamt Max Records, sem leikur strákinn Max sem kemst í kynni við undarlegar verur.
Spike Jonze við tökur á Where the Wild Things Are ásamt Max Records, sem leikur strákinn Max sem kemst í kynni við undarlegar verur.

Ævintýramynd leikstjórans Spike Jonze, Where the Wild Things Are, verður frumsýnd á morgun. Jonze vakti fyrst athygli fyrir tónlistarmyndbönd áður en hann sneri sér að hvíta tjaldinu.

Bandaríski leikstjórinn Spike Jonze fæddist í Rockville í Mary­land árið 1969 og var skírður Adam Spiegel. Á unglingsaldri starfaði hann í BMX-hjólreiðabúð og þar gáfu samstarfsmenn honum viðurnefnið Spike Jonze, sem festist við hann. Hann fékk fljótt áhuga á ljósmyndun og fékk starf við hjólabrettatímaritið Freestylin" á níunda áratugnum. Því næst stofnaði hann ásamt tveimur vinum sínum tímaritin Homeboy og Dirt sem voru ætluð fyrir ungmenni, auk fyrirtækisins Girl Skateboards. Á svipuðum tíma byrjaði Jonze að fikta við gerð stuttmynda og tónlistarmyndbanda. Hann sló í gegn með myndbandinu við lag Beastie Boys, Sabotage, og gerði í framhaldinu eftirminnileg myndbönd fyrir Björk (It"s Oh So Quiet) og Fatboy Slim (Praise You).

Fyrsta kvikmynd Jonze í fullri lengd var hin skemmtilega en stórundarlega Being John Malkovich sem kom út árið 1999 og tryggði honum tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir leikstjórnina. Hann fylgdi vinsældum hennar eftir með Adaptation, annarri sérstæðri mynd, með Nicolas Cage í aðalhlutverkinu. Hún var tilnefnd til fernra Óskarsverðlauna og fékk Chris Cooper þau einu fyrir bestan leik í aukahlutverki.

Handritin að báðum myndunum skrifaði góðvinur Jonze, Charlie Kaufman, sem var einmitt tilnefndur til Óskarsins í bæði skiptin. Árið 2005 hlaut Kaufman síðan verðlaunin sem einn handritshöfunda Eternal Sunshine of the Spotless Mind.

Þess má geta að auk þess að leikstýra kvikmyndum og tónlistarmyndböndum er Spike Jonze einn af mönnunum á bak við Jackass-sjónvarpsþættina vinsælu sem slógu fyrst í gegn á MTV.

Ævintýramyndin Where the Wild Things Are er byggð á samnefndri barnabók Maurice Sendak, sem hafði sjálfur samband við Spike Jonze til að fá hann til að taka að sér leikstjórnina. Myndin fjallar um Max sem strýkur að heiman eftir að hafa lent í rifrildi við móður sína. Hann finnur yfirgefinn seglbát og kemur að eyju þar sem hann hittir fyrir mjög undarlegar, loðnar verur. Á meðal þeirra sem ljá þeim raddir sínar eru James Gandolfini, Forest Whitaker, Catherine O"Hara, Paul Dano og Chris Cooper.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.