Innlent

Öskufall hamlaði flugi í Eyjum

Kona í barnsnauð var flutt í land með björgunarbátnum Þór.
Kona í barnsnauð var flutt í land með björgunarbátnum Þór.
Björgunarskip Björgunarfélags Vestmannaeyja flutti konu í barnsnauð frá Vestmannaeyjum aðfaranótt þriðjudags þar sem öskufall hamlaði flugi. Í Landeyjahöfn beið sjúkrabíll með ljósmóður frá Selfossi og flutti konuna á fæðingardeild Landspítalans í Reykjavík.

„Þetta gekk vonum framar,“ segir Birgir Nielsen, sem varð konu sinni samferða til Reykjavíkur. Hann segir barnið ekki væntanlegt alveg strax en þau séu í góðum höndum á Landspítalanum.

„Það var rjómablíða í nótt og björgunarsveitin leysti þetta vel úr hendi,“ segir hann, en kveður þó að óneitanlega hafi verið sérstakt að koma inn í Bakkafjöru í fyrrinótt. „Við fengum þær fregnir að þyrlan myndi ekki koma og vorum svo komin í bæinn tveimur tímum seinna.“

Gunnar Kristinn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja, segir að öskufall vegna eldgossins í Eyjafjallajökli hamli þar flugi núna, Eyjarnar séu inni á flugbannssvæði og völlurinn lokaður. „Við höfðum samband við Landhelgisgæsluna en þeir treystu sér ekki til að koma með þyrluna nema um líf og dauða væri að tefla og það var ekki í þessu tilviki,“ segir hann. - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×