Innlent

Bættri afkomu OR ekki bara náð fram með hækkunum

Fráfarandi meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins í Reykjavík segir engin ný tíðindi fólgin í því að gjaldskrár Orkuveitunnar þurfi að taka breytingum þegar horft er til næstu fimm ára.

Fram kom í Fréttablaðinu í dag að miklar hækkanir eru nauðsynlegar á gjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur eigi markmið fimm ára áætlunar um fjárþörf fyrirtækisins að nást. Samkvæmt áætluninni eru hækkanir fyrirhugaðar á öllum póstum, nema þegar kemur að kalda vatninu. Hækka þarf heitt vatn um 37%.

Í bókun sem meirihlutinn lagði fram í borgarráð í dag segir að gjaldskrár Orkuveitu Reykjavíkur hækki ekki á árinu 2010 og að þær hafi ekki hækkað í langan tíma, í samræmi við aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar, og því lækkað að raungildi.

Meirihlutinn segir að í svari stjórnenda Orkuveitunnar við fyrirspurn Sigrúnar Elsu Smáradóttur, fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórn fyrirtækisins, um arðsemi sé því svarað hversu mikið gjaldskrár þyrftu að breytast ef bættri afkomu væri einungis mætt með gjaldskrárhækkunum en ekki einnig með hagræðingu, bættu gengi og fleiru. Ekki sé tekið tillit til annarra þátta eins og hagræðingar í rekstri, heimsmarkaðsverðs á áli, stöðu gjaldmiðla eða vaxtakjara á lánamörkuðum.

Því sé útilokað að bættri afkomu yrði einungis mætt með gjaldskrárhækkunum. Gjaldskrárhækkunarþörfin samkvæmt svarinu er því stórkostlega ofmetin, að mati fráfarandi meirihluta sjálfstæðis- og framsóknarmanna í Reykjavík.




Tengdar fréttir

Hækka þarf heitt vatn um 37 prósent

Eigi markmið fimm ára áætlunar um fjárþörf Orkuveitu Reykjavíkur (OR) að nást, þarf mikla hækkun á gjaldskrá fyrirtækisins. Á það við um allt nema kalda vatnið. Þar mun gjaldskrá standa í stað.

Sigrún Elsa: „Þetta er bara kjaftæði og ekki boðlegt“

„Við spurðum um þetta í janúar og ítrekað í borgarráði" segir Sigrún Elsa Smáradóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn Orkuveitunnar, um yfirvofandi gjaldskrárhækkun Orkuveitunnar á heitu vatni. Fréttablaðið greindi frá því í dag að það standi til að hækka verð á heitu vatni um 37 prósent á næstu fimm árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×