Innlent

Eva Joly hvetur fjárglæframenn til þess að gefa sig fram

Eva Joly segir að það geti ekki verið auðvelt að sæta rannsókn í fjögur ár, svo ganga í gegnum dómsmál, og að lokum vera dæmdur. Það sé einfaldara að gefa sig hreinlega fram.
Eva Joly segir að það geti ekki verið auðvelt að sæta rannsókn í fjögur ár, svo ganga í gegnum dómsmál, og að lokum vera dæmdur. Það sé einfaldara að gefa sig hreinlega fram.

Ráðgjafi sérstaks saksóknara, Eva Joly, hvatti fjárglæframenn til þess að gefa sig fram í viðtali í Kastljósinu í kvöld, og auðvelda þar með líf allra.

Hún sagði það skynsamlegustu lausnina fyrir þá. Annars þyrftu sömu mennirnir að sæta rannsókn í fjögur ár, svo tæki við dómsmál og að lokum þungur dómur.

„Ef þeir gefa sig fram núna þá tekur dómurinn tillit til þess," sagði hún og áréttaði það sem áður hefur komið fram, að fyrstu ákærur frá sérstökum saksóknara líta dagsins ljós nú í sumar.

Eva sagði að það væri dæmigert fyrir efnahagsglæpamenn að verja sig fram í rauðan dauðann. Þá skipti engu hvort það væri búið að dæma þá. Hún sagði hinsvegar, eftir að hafa lesið enskan úrdrátt úr skýrslu rannsóknarnefndar, að það gæti ekki verið auðvelt að standa í þeim sporum að hafa unnið þjóð sinni slíkan skaða.

„Slíkt getur ekki verið auðvelt," sagði Eva.

Þá sagði Eva einnig að skýrsla rannsóknarnefndarinnar væri verulega mikilvæg vegna rannsóknar sérstaks saksóknara.

Einnig benti hún á að embættið þyrfti 80 starfsmenn næstu fjögur árin til þess að rannsóknin tæki skemmri tíma. Annars gæti rannsóknir tekið allt að tíu ár.

Eva sagði jafnframt að sérstakur saksóknari nyti stuðnings forsætisráðherra og dómsmálaráðherra. Og Þess má geta að Eva hitti Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra í fyrsta skiptið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×