Lífið

Hvað er að frétta af risunum?

Öll í startholunum
Amy, Britney, The Streets og U2 verða öll með plötur í ár ef heilsan og lukkan leyfir.
Öll í startholunum Amy, Britney, The Streets og U2 verða öll með plötur í ár ef heilsan og lukkan leyfir.

Ýmsir risar í rokkheimum snúa aftur í ár með nýjar plötur. Dr. Gunni kannaði málið.

Bono og félagar í U2 gáfu út No Line on the Horizon á síðasta ári, en á sama tíma og sú plata var tekin upp tóku þeir upp níu önnur lög sem pössuðu ekki og voru sett á ís. Þessi lög og önnur sem hafa verið tekin upp síðan eru nú hugsuð til útgáfu í sumar á næstu U2-plötu sem ber titilinn Songs of Ascent. Bono hefur sagt um þessa músík að hún fjalli á „íhugulan hátt um pílagrímsferðir“. Alltaf djúpir, U2.

R.E.M. var síðast á ferðinni 2008 með plötuna Accelerate. Bandið hefur verið að taka upp nýtt efni og má allt eins búast við plötu á árinu.

Stelpurnar

Hljómsveitin No Doubt hefur legið í salti síðan 2001 því Gwen Stefani hefur staðið í velheppnuðu sólóstússi. Hljómsveitin fór í fyrsta tónleikaferðalagið sitt í mörg ár í fyrra og hamast nú í hljóðveri við að klára nýju plötuna.

Britney Spears stefnir á plötu í sumar og hefur pródúserana Darkchild og David Guetta sér til aðstoðar. Önnur söngkona sem hefur átt í veseni með líf sitt er Amy Winehouse. Hún hefur ekki gert plötu síðan Back to Black kom árið 2006. Amy dvaldi á eyjunni St. Lucia í Karíbahafinu í fyrra og vann þar með pródúsernum Salaam Remi, sem gerði síðustu plötu með henni. Ef allt gengur upp ættu aðdáendur Amy að fá nýjan skammt í ár.

Aðrar vinsælar poppsöngkonur sem eru með plötur á teikniborðinu í ár eru Katy Perry, Janet Jackson, Christina Aguilera, Beyoncé og Madonna gæti jafnvel birst með nýja plötu, ef hún verður ekki of upptekinn við að líta unglega út.

Imelda á plötu

David Byrne, söngvari Talking Heads, og Fatboy Slim er undarlegur kokteill, en þeir leiða saman hesta sína á konsept-plötunni Here Lies Love, sem kemur út í febrúar. Platan fjallar um samband Imeldu Marcos, alræmda forsetafrú Filippseyja, við einn þjóna hennar frá bernskuskeiði. Þetta er mikill pakki, tvöfaldur diskur og 100 blaðsíðna bæklingur. Alls koma 22 gestasöngvarar fyrir á plötunni, meðal annars Tori Amos og Cyndi Lauper.

Hinn enski Mike Skinner, öðru nafni The Streets, kemur með fimmtu plötuna sína, Computer and Blues, í febrúar. Þetta verður síðasta platan með The Streets-nafninu, því Mike segist vera „drulluþreyttur“ á nafninu og öllu því sem fólk býst við af því. Platan verður „dimm og framtíðarleg“ en þó glittir alltaf í grínið því eitt lagið heitir til að mynda „He’s Behind You, He’s Got Swine Flu“.

Í indí-rokkinu má segja að The Arcade Fire og LCD Soundsystem séu skærustu stjörnurnar um þessar mundir. Báðar sveitirnar verða með plötur á árinu. Búist er við þriðju Arcade Fire-plötunni í maí, en engin nánari dagsetning á þriðju plötu LCD Soundsystem er fáanleg að sinni.

Í pungsveitta rokkinu má búast við plötum frá Velvet Revolver og Linkin Park á árinu og Limp Bizkit snýr meira að segja aftur með fullmannað lið. Nýja platan með þeim heitir Gold Cobra og er væntanleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.