Innlent

Jólatrjám stolið: Finna sárin í skóginum á hverju ári

Undanfarin ár hefur trjám verið stolið úr skóginum.mynd/þórarinn ólafsson
Undanfarin ár hefur trjám verið stolið úr skóginum.mynd/þórarinn ólafsson

Nokkuð hefur borið á því undanfarin ár að fólk hefur tekið jólatré ófrjálsri hendi í Hnausaskógi í Þorskafirði. Umsjónarmenn Skóga hafa boðið íbúum Reykhólahrepps að koma í Hnausaskóg þegar þeir vilja og njóta þess sem skógurinn hefur að bjóða, til að mynda að tína ber, sveppi og njóta náttúrunnar, en skógarhögg hefur ekki verið eitt af þeim atriðum.

„Það er stolið jólatrjám úr skóginum á hverju ári. Jafnvel tegundum sem fólk ætti alls ekki að vera að taka, eins og rauðgreni, sem hefur átt undir högg að sækja á svæðinu,“ segir Björg Karlsdóttir, einn af umsjónarmönnum Skóga á svæðinu. „Það sér á skóginum, við finnum sárin á hverju ári. Það er höggvið ofan af trjánum og þau skilin eftir topplaus í sumum tilvikum.“

Umsjónarmenn Skóga vilja að Hnausaskógur sé opinn öllum þeim sem vilja njóta hans, en skilyrðið sé að gengið sé um hann af heiðarleika og virðingu. „Að stela trjám er ekki góður boðskapur um jólin,“ segir Björg. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×