Innlent

Slátruðu nítján lömbum í gámi

Fólkið slátraði lömbunum með rotbyssu.
Fólkið slátraði lömbunum með rotbyssu.

Tveir karlmenn og ein kona hafa verið sýknuð af ólögmætri sauðfjárslátrun með því að hafa slátrað lömbum í gámi. Héraðsdómur Vesturlands kvað upp dóminn.

Fólkið var ákært fyrir að hafa í sameiningu slátrað nítján lömbum í sendibíl og gámi aftan við hús í Stykkishólmi. Þrettán lambanna voru í eigu annars mannsins og sex í eigu konunnar. Var fólkið ákært fyrir brot á lögum um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu og heilbrigðisskoðun og gæðamat afurða.

Í september á síðasta ári gerði Heilbrigðiseftirlit Vesturlands lögreglu viðvart um slátrunina. Þá var búið að hengja lambskrokkana nítján upp í gámnum, auk þess sem sami fjöldi hausa var á borði á sama stað. Einnig voru fjórir álbakkar með innyflum í gámnum.

Fram kom að lömbin hefðu þennan sama morgun verið flutt í lokaðri sendibifreið að gáminum. þeim hefði síðan verið slátrað í bílnum með rotbyssu og frágangi lokið um hádegisbil.

Dómurinn leit svo á að þar sem afurðirnar hefðu einungis verið ætlaðar til einkaneyslu en hvorki sölu né dreifingar bæri að sýkna fólkið.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×