Innlent

Breyta sögunni um meintan höfuðpaur

í Héraðsdómi Þorgrímur Kolbeinsson og Jón Sveinbjörn Jónsson, ákærðir ásamt þremur öðrum fyrir smygl á amfetamíni, hittast í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þeir sitja á milli Bjarna Haukssonar og Brynjars Níelssonar lögmanna.Fréttablaðið/GVA
í Héraðsdómi Þorgrímur Kolbeinsson og Jón Sveinbjörn Jónsson, ákærðir ásamt þremur öðrum fyrir smygl á amfetamíni, hittast í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Þeir sitja á milli Bjarna Haukssonar og Brynjars Níelssonar lögmanna.Fréttablaðið/GVA

Hluti þeirra sem ákærðir eru fyrir tilraun til að smygla tæpum fjórum kílóum af amfetamíni til landsins síðasta haust sneri við framburði sínum varðandi hlutdeild meints höfuðpaurs í málinu. Af fimm ákærðum í málinu neitar sá einn sök. Aðalmeðferð fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Loga Má Hermannssyni er gefið að sök að hafa skipulagt og fjármagnað innflutning á 3,9 kílóum af amfetamíni sem bárust til landsins með pósti frá Danmörku og voru sótt í tollafgreiðslu 7. september síðastliðinn. Þá er ákærður fyrir að skipuleggja verknaðinn Þorgrímur Kolbeinsson. Hann játar að hafa keypt fíkniefnin á brautarstöð í Kaupmannahöfn, búið þau til sendingar og póstlagt. Þorgrímur fékk Jón Sveinbjörn Jónsson til að sækja pakkann, en hann faldi svo sendinguna í Mosfellsbæ.

Ytra hafði lögregla komist á snoðir um efnin. Gerviefni var sett í stað amfetamínsins og senditæki sett í pakkann. Mennirnir voru svo handteknir eftir að Þorsteinn Birgisson og Jóhann Páll Jóhannsson sóttu pakkann til Jóns Sveinbjarnar.

Jóhann Páll er yngstur mannanna, 19 ára gamall, en hinir eru á þrítugsaldri, Logi 27 ára, Þorgrímur og Jón Sveinbjörn 25 ára og Þorsteinn 22 ára gamall. Allir hafa setið í gæsluvarðhaldi, flestir fram í október. Þorgrímur er sá eini sem er enn í gæsluvarðhaldi.

Fram kom við málflutninginn að tengsl væru ekki á milli Þorgríms og Jóhanns Páls, en báðir hafi í yfirheyrslum og fyrir dómi borið um þátt Loga Más. Við aðalmeðferðina í gær kváðust báðir hafa hent á lofti orð lögreglumanna um mögulega aðkomu Loga og borið á hann glæpinn í von um að sleppa fyrr úr gæsluvarðhaldi.

Logi neitar einn allri sök varðandi smyglið á amfetamíninu. Fyrir dómi kvað hann þá Þorgrím þó vera kunningja, enda hefði hann í nokkur skipti keypt af Þorgrími stera. Í ákæru er honum jafnframt gert að sæta upptöku á sterum sem fundust heima hjá honum.

Logi sagði „hrikalegt“ að vera borinn sökum á þennan hátt og kvað einsýnt að þessir kunningjar hans hafi reynt að koma af sér sökum með því að bendla hann við málið. Fyrir það verði þeir að svara sjálfir.

Hulda María Stefánsdóttir, fulltrúi Ríkissaksóknara, sagði viðsnúning í framburði ákærðu ótrúverðugan í meira lagi. Taldi hún fordæmi fyrir því að höfuðpaurarnir, Logi og Þorgrímur, fengju tveggja og hálfs árs fangelsi, aðrir eitt og hálft ár.

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×