Innlent

Gögn um aðildarviðræður opinberuð

Össur Skarphéðinsson Gaf Alþingi í gær skýrslu um stefnu sína í utanríkismálum og störf utanríkisráðuneytisins síðasta ár.Fréttablaðið/Pjetur
Össur Skarphéðinsson Gaf Alþingi í gær skýrslu um stefnu sína í utanríkismálum og störf utanríkisráðuneytisins síðasta ár.Fréttablaðið/Pjetur

Össur Skarphéðinsson hyggst opna gagnvirka heimasíðu til þess að Íslendingar geti komið skoðunum á framfæri við samninganefnd Íslands í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.

„Það er mikilvægt að hafa umsóknarferlið eins opið og gagnsætt og hægt er, ekki síst til þess að eyða tortryggni og misskilningi sem stundum örlar á,“ sagði Össur þegar hann gaf Alþingi í gær skýrslu um stefnu sína í utanríkismálum og störf ráðuneytisins á liðnu ári. Fundargerðir samninganefndarinnar og einstakra samningahópa verði opinber gögn.

„Samningsafstaða í íslenskum hópum verður opinber þegar hún liggur fyrir og einnig önnur gögn svo framarlega sem samningafólkið okkar telji það ekki skaða samningshagsmuni Íslendinga,“ sagði Össur.

„Ég tel líka rétt að veita Íslendingum beina hlutdeild í umsóknarferlinu.“ Í því skyni verði opnuð gagnvirk vefsíða, þar sem fólk geti komið skoðunum á framfæri, „en jafnframt haft reglulega samræðu við aðalsamningamanninn, sérfræðinga, samningamenn og eftir atvikum ráðherrann sjálfan“.

Össur hefur mælst til að Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og aðalsamningamaður Íslendinga, fari um landið á næstunni og haldi opna fundi um gang viðræðna og næstu skref:

„Það er sjálfsagt að menn fái það sem er að gerast hverju sinni beint í æð og þá beint frá kúnni,“ sagði ráðherrann.

Össur segist líta á Evrópumálin sem grundvöll í endurreisn Íslands.

„Það hefur aldrei verið ríkari ástæða en einmitt nú til að láta reyna á hvað getur falist í aðildarsamningum. Við þurfum stöðugleika, við þurfum fjárfestingar, við þurfum störf, við þurfum að byggja atvinnu- og efnahagslífi lífi þjóðarinnar sem allra traustasta umgjörð.“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, spurði hvort Össur hefði ekki áhyggjur af stöðu samningaviðræðna við ESB: „Er til staðar nægileg pólitísk forysta til að leiða samninga til lykta?“ spurði Bjarni.

„Ég hef meiri áhyggjur af mörgu öðru sem lýtur að hagsmunum Íslands en því,“ svaraði ráðherrann en kvaðst mundu fagna því ef jafnöflugur stjórnmálamaður og Bjarni „mundi taka með meira afgerandi hætti þátt í að tosa þessu fram“.

peturg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×