Innlent

Franklin Stiner dæmdur í fangelsi

Franklín Stiner.
Franklín Stiner. MYND/GVA

Franklin Stiner var í dag dæmdur í átta mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir vörslu fíkniefna. Hann var ákærður fyrir að hafa í október 2008 haft í fórum sínum rúm 150 grömm af amfetamíni, 32 grömm af kókaíni, lítilræði af hassi og 23 alsælutöflur sem lögregla fann við leit. Tæpu hálfu ári síðar fundu lögreglumenn aftur fíkniefni hjá Franklín, í þetta sinn rúm 22 grömm af amfetamíni 2 alsælutöflur og lítilræði af tóbaksblönduðu kannabis.

Efnin fundust á heimili Franklins Stiner, áður Steiner, en hann hefur áður komið við sögu lögreglu vegna fíkniefnamála. Í fyrra tilvikinu framkvæmdi lögreglan húsleit að fengnum úrskurði dómara en í því síðara var leitað á heimili hans eftir að lögreglumenn höfðu heimsótt Stiner vegna upplýsinga um meint fíkniefnamisferli. Sonur hans kom til dyra og samkvæmt lögreglu varð Franklín „mjög flóttalegur". Hann hafi þó heimilað leit á heimili sínu og fundust þá efnin.

Einnig var Franklin með skammbyssu sem hann sagði óhlaðna og óvirka. Skotfæri fundust einnig í vasa hans. Franklin sagðist hafa verið að gera byssuna upp þegar lögreglu bar að garði og að hann hafi stungið henni ósjálfrátt á sig.

Franklin Stiner var því dæmdur í átta mánaða fangelsi og hafnaði dómari því að skilorðsbinda refsinguna þrátt fyrir að Franklín hafi farið fram á það og vísað til heilsufars. Hann skal einnig greiða allan sakarkostnað, rúmlega eina milljón króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×