Íslenski boltinn

Brynjar Gauti til ÍBV

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brynjar Gauti Guðjónsson.
Brynjar Gauti Guðjónsson. Mynd/Anton

Eyjamenn hafa styrkt leikmannahóp sinn fyrir átök næsta sumars í Pepsi-deild karla en Brynjar Gauti Guðjónsson samdi við liðið í dag.

Brynjar Gauti er stórefnilegur varnarmaður sem hefur verið fyrirliði U-19 ára landsliðs Íslands. Hann gerði þriggja ára samning við ÍBV.

Hann er aðeins átján ára gamall en á engu að síður að baki 61 leik í deild og bikar með Víkingi Ólafsvík. Hann lék sinn fyrsta leik með liðinu aðeins fimmtán ára gamall.

Víkingur vann 2. deildina í sumar og lék Brynjar Gauti alla 22 leiki liðsins sem og fimm af sex leikjum þess í VISA-bikarkeppni karla þar sem Víkingar komust alla leið í undanúrslit. Liðið tapaði þar fyrir FH sem varð svo bikarmeistari.

Víkingur hafði talsverða yfirburði í 2. deildinni í sumar og tapaði ekki leik. Liðið skoraði 56 mörk í sumar, þar af átti Brynjar Gauti fjögur þeirra, og fékk ekki nema nítján mörk á sig.

Brynjar Gauti er þriðji leikmaðurinn sem Eyjamenn fá til liðs við sig nú á haustmánuðum en fyrir voru þeir Ian Jeffs og Guðmundur Þórarinsson búnir að semja við ÍBV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×