Innlent

Með íslenskan búfénað á bandarísku bóndabýli

Lisa Richards með íslenskt lamb og hvolpa sem eru undan íslensku fjárhundunum Dísu og Bjarka.
Lisa Richards með íslenskt lamb og hvolpa sem eru undan íslensku fjárhundunum Dísu og Bjarka.

„Viðskiptavinum okkar finnst mjög skemmtilegt að heimsækja bóndabýlið og fylgjast með hvernig dýrin eru ræktuð,“ segir bóndakonan Lisa Richards.

Lisa Richards og Frank, eiginmaður hennar, reka Mack Hill-bóndabýlið í New Hampshire-ríki í Bandaríkjunum. Þau hafa sérstakt dálæti á íslenskum búfénaði og eru með íslenska fjárhunda, íslenskt sauðfé og íslenskar hænur á býlinu. „Bara ef ég ætti efni á íslenskum hestum,“ segir Richards, en hún sparar nú peninga til að komast til Íslands að sækja egg til að auka líffræðilega fjölbreytni hænsanna á býlinu.

„Við búum á köldu svæði sem er ekki mjög hagsælt, en frekar stórt. Þannig að við vildum sauðfé sem myndi þrífast við þær aðstæður,“ segir Richards um upphafið á íslensku búfénaðsinnrásinni á bóndabýli þeirra hjóna. „Ég vildi líka getað mjólkað sauðféð vegna þess að ég elska kindaost. Við nýtum líka ullina, en það er góður markaður fyrir íslenska ull í Bandaríkjunum og hún er mjög verðmæt.“

Mack Hill-bóndabýlið er sjálfbært, en Lisa og Frank sérhæfa sig í ræktun á sjaldgjæfari búfénaði. Ásamt því að selja ull framleiða þau jógúrt og osta. Þá selja þau egg undan íslensku hænunum og íslenskt lambakjöt, sem þau eru afar stolt af. „Lambakjötið er mjög verðmætt,“ segir Richards. „Samkvæmt Whole Foods-versluanrkeðjunni er kjötið það besta í heimi og við erum sammála. Það selst upp á hverju ári og við erum með biðlista.“

Eins og Fréttablaðið greindi frá á dögunum var íslenski fjárhundurinn frumsýndur á einni stærstu og virtustu hundasýningu Bandaríkjanna í nóvember. Lisa og Frank Richards rækta íslenska hunda undan tíkinni Dísu og hundinum Bjarka sem eru bæði hreinræktuð. „Þegar við vorum komin með sauðféð og kjúklingana var rökrétt að vera líka með fjárhunda,“ útskýrir Lisa Richards. „Dísa og Bjarki hjálpa til við að reka bóndabýlið með því að smala fénu, svínunum, beljunum og öllu öðru sem þarf að smala. Þetta eru æðislegir hundar.“ atlifannar@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×