Lífið

Tilnefndar til sjö Razzies

Megabeibið Megan Fox hlaut tvær tilnefningar til Razzies-verðlaunanna.
Megabeibið Megan Fox hlaut tvær tilnefningar til Razzies-verðlaunanna.

Kvikmyndirnar Transformers: Revenge of the Fallen og Land of the Lost fengu sjö tilnefningar hvor til hinna árlegu Razzies-skammarverðlauna í Hollywood. Báðar voru þær tilnefndar sem verstu myndir síðasta árs auk þess sem aðalleikararnir, Megan Fox og Will Ferrell, voru tilnefndir sem verstu leikararnir. Fox var sömuleiðis tilnefnd fyrir hlutverk sitt í Jennifer"s Body.

Aðrar myndir tilnefndar sem þær verstu voru All About Steve með Söndru Bullock í aðalhlutverki, G.I. Joe: The Rise of the Cobra og Old Dogs með Robin Williams og John Travolta í aðalhlutverkum. Bullock var einnig tilnefnd sem versta leikkonan, sem er nokkuð skondið því búist er við því að hún verði tilnefnd til Óskarsverðlaunanna í dag fyrir frammistöðu sína í The Blind Side. „Hún gæti orðið fyrsta manneskjan til að hljóta Razzie- og Óskarsverðlaun sömu helgina,“ sagði John Wilson, skipuleggjandi Razzies-verðlaunanna, sem verða afhent í þrítugasta sinn 6. mars, degi á undan Óskarsverðlaununum.

Aðrar tilnefndar sem verstu leikkonur voru Miley Cyrus, Beyonce Knowles og Sarah Jessica Parker. Sem verstu leikarar voru einnig tilnefndir Jonas-bræður, Steve Martin, Eddie Murphy og John Travolta.

Tilnefningar fyrir verstu myndir og leikara síðasta áratugar voru einnig tilkynntar. Sem versta myndin var Battlefield Earth nefnd til sögunnar ásamt Freddy Got Fingered, Gigli, I Know Who Killed Me og Swept Away. Ben Affleck, sem lék í Gigli, var tilnefndur sem versti leikarinn ásamt John Travolta úr Battlefield Earth. Aðrir tilnefndir voru Eddie Murphy, Mike Myers og Rob Schneider. Í kvennaflokki urðu fyrir valinu þær Lindsay Lohan, Jennifer Lopez, Madonna, Mariah Carey og Paris Hilton.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.