Innlent

Íslendingar nota allt að 20 milljónir plastpoka á ári

Úr safni. Fram kemur í svari umhverfisráðherra að plastpokar séu yfirleitt framleiddir úr svokölluðu polyetylen-plasti.
Úr safni. Fram kemur í svari umhverfisráðherra að plastpokar séu yfirleitt framleiddir úr svokölluðu polyetylen-plasti. Mynd/Stefán Karlsson
Umhverfisráðuneytið áætlar að á bilinu 15-20 milljónir plastpoka séu notaðir hér á landi á ári hverju. Þetta kemur fram í skriflegu svari umhverfisráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.

Eygló vildi vita hversu margir plastpokar væru notaðir Íslandi á hverju ári, úr hverju þeir væru, hve langan tíma það tæki fyrir plastpoka að brotna niður í umhverfinu og hvort umhverfisráðuneytið hefði gripið til aðgerða til að draga úr plastpokanotkun.

Fram kemur í svari umhverfisráðherra að plastpokar séu yfirleitt framleiddir úr svokölluðu polyetylen-plasti. Upp á síðkastið hafi einnig verið að koma á markað plastpokar sem unnir séu úr kartöflu- eða maíssterkju sem brotna hraðar niður í náttúrunni. Yfirleitt sé áætlað að það taki venjulegan plastpoka um 100 ár að brotna niður í náttúrunni.

Þá segir í svarinu að ráðuneytið hafi ekki gripið til aðgerða til að draga úr plastpokanotkun. Aftur á móti hafi sérstakt gjald verið lagt á plastpoka í flestum verslunum og að það gjald hafi verið hugsað til að draga úr óhóflegri notkun plastpoka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×