Lífið

Býður fólki til Vúlkan

Laufey Johansen málar landslag og orku frá Vúlkan. Fréttablaðið/vilhelm
Laufey Johansen málar landslag og orku frá Vúlkan. Fréttablaðið/vilhelm
Í dag opnar sýning Laufeyjar Johansen í Reykjavík Art Gallery á Skúlagötu 30 en Laufey er í mjög nánu sambandi við hina týndu plánetu Vúlkan. „Ég hef tekið að mér að vera málsvari orkunnar frá Vúlkan hér á jörðinni. Það sem ég mála er landslag frá Vúlkan, en einnig áhrif frá öðrum plánetum."

Áhrifum Vúlkan á líf og list Laufeyjar fór að gæta fyrir rúmlega tveimur árum síðan. „Mér var sagt frá því af Páli Sgurvinssyni á Hellissandi að ég hefði fengið það hlutverk að vera millistykki fyrir orkuna frá Vúlkan. Ég hélt að maðurinn væri ekki með öllu mjalla. En þetta var ekki í fyrsta skipti sem einhver sagði svona við mig. Ég á spólu með miðli í Danmörku sem sagði að ég ætti eftir að verða mikill listamaður en þá kunni ég ekki einu sinni að teikna Óla Prik. En þetta eru engar tilviljanir. Það eru brautir sem toga þig inn á sig, en spurningin er bara hvort þú hlustir eða ekki. Ég hlustaði. Og þetta er það stórkostlegasta sem ég hef kynnst."

Laufey ólst upp við andlegu fræði. Afi hennar var Einar Kvaran, mikill frumkvöðull í sálarrannsóknum, og hún ólst upp við tíða miðilsfundi. Plánetan Vúlkan sem „talar" svona sterklega til hennar, var löngum talin vera á milli Merkúr og sólarinnar en stjarnfræðingar segja flestir í dag að hún sé ekki til. Vúlkan kemur mikið fyrir í Star Trek myndunum og Laufey er ekki í neinum vafa um að plánetan sé á sínum stað, svo sterklega finnur hún til hennar. Sýningin opnar kl. 14 í dag og stendur til 14. febrúar.

drgunni@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.