Innlent

Sólheimum ekki lokað segir ráðherra

Sólheimar í Grímsnesi hafa verið starfandi í um 80 ár, og sá sem lengst hefur búið þar hefur átt þar heimili í um 60 ár.Fréttablaðið/Jón Sigurður
Sólheimar í Grímsnesi hafa verið starfandi í um 80 ár, og sá sem lengst hefur búið þar hefur átt þar heimili í um 60 ár.Fréttablaðið/Jón Sigurður

Félagsmál Framkvæmdastjóri Sólheima í Grímsnesi segir starfseminni sjálfhætt um áramót ákveði ríkið ekki að tryggja þjónustu Sólheima þegar þjónusta við fatlaða verður færð frá ríki til sveitarfélaga.

„Við erum skilin eftir [...], við erum að lenda í 100 prósenta niðurskurði um áramót," segir Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima, sem er heimili 43 fatlaðra einstaklinga.

Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, segir að hann hafi ekki náð að kynna sér umkvörtunarefni stjórnenda Sólheima. Það sé þó skýrt að Sólheimum verði ekki lokað.

Guðmundur segir að stjórnendur Sólheima hafi fengið þau skilaboð að engin framlög til Sólheima verði á fjárlögum næsta árs, en um 270 milljónir voru eyrnamerktar starfseminni í ár.

Sveitarfélögin munu taka yfir samninga ríkisins við sjálfstæða aðila sem veita fötluðum þjónustu. Guðmundur segir engan samning hafa verið í gildi við Sólheima síðustu tvö ár. Deilt hefur verið um niðurskurð og því ekki samið.

„Við gerum þá kröfu að ríkið veiti okkur sömu tryggingu og það veitir sveitarfélögunum," segir Guðmundur.

„Við erum að tala um líf, öryggi og þjónustu við 43 fatlaða einstaklinga, þetta eru ekki einhverjar tölur á blaði."

Sólheimar hafa verið starfandi frá árinu 1930. Elsti íbúi Sólheima hefur búið þar í um 60 ár, segir Guðmundur.

„Við höfum reynt að milda þetta eins og við getum gagnvart okkar fólki, en fólkið okkar er miður sín, það er ekkert öðruvísi."- bj




Tengdar fréttir

Þingmaður: Ráðuneytið hefur horn í síðu Sólheima

„Um langt árabil hefur félagsmálaráðuneytið og fjölmargir ráðherrar haft horn í síðu uppbyggingarinnar á Sólheimum. Alltof lengi hefur ekki verið friður um þessa starfsemi,“ segir Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Sólheimar hugsanlega úr sögunni

Grundvöllur fyrir starfi Sólheima í Grímsnesi að málefnum fatlaðra gæti verið brostinn, segir í samþykkt fulltrúaráðs Sólheima frá því í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×