Lífið

Ellie Goulding er efnilegust

Ellie Goulding er líklegust til að slá í gegn á þessu ári samkvæmt nýjum lista BBC. nordicphotos/getty
Ellie Goulding er líklegust til að slá í gegn á þessu ári samkvæmt nýjum lista BBC. nordicphotos/getty

Söngkonan Ellie Goulding er líklegust til að slá í gegn á þessu ári samkvæmt árlegum lista breska ríkisútvarpsins, BBC.

Goulding, sem er 22 ára, blandar saman órafmagnaðri þjóðlagatónlist og nútímapoppi með áhugaverðum árangri og þykir hún eiga framtíðina fyrir sér í tónlistarbransanum. Á meðal fyrri sigurvegara hjá BBC eru Little Boots, Adele, Mika, Corinne Bailey Rae, Keane og rapparinn 50 Cent.

Það voru 165 tónlistargagnrýnendur, sjónvarpsmenn og bloggarar sem kusu Goulding í efsta sætið. Í næstu sætum á eftir komu Marina and the Diamonds, Delphic, Hurts og The Drums.

Goulding var uppgötvuð í hæfileikakeppni í heimabæ sínum Kington í Herefordskíri. Þegar hún stundaði leiklistarnám við háskólann í Canterbury kynntist hún upptökustjórunum Frankmusik og Starsmith sem sérhæfa sig í danstónlist og í framhaldinu vakti hún töluverða athygli á Myspace.

Goulding, sem fékk nýlega gagnrýnendaverðlaun á Brit-hátíðinni, segir það mikinn heiður að hafa verið valin efnilegust hjá BBC. „Ég átti ekki von á því að komast neitt áleiðis fyrir nokkrum árum,“ sagði hún. „Ég bjóst ekki einu sinni við því að fá plötusamning, hvað þá að vinna svona flottan titil, þannig að ég er mjög ánægð. Mér finnst listinn sem var tilkynntur í ár virkilega flottur og ég hef mikla trú á mörgum þeirra sem eru á honum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.