Lífið

Hópur Litháa á Íslandi stofnar nýtt íþróttafélag

Algirdas vill aðstoða innflytjendur, bæði frá Litháen og annars staðar frá, við að aðlagast íslensku samfélagi.fréttablaðið/stefán
Algirdas vill aðstoða innflytjendur, bæði frá Litháen og annars staðar frá, við að aðlagast íslensku samfélagi.fréttablaðið/stefán

„Við viljum sýna að við erum ekki öll slæmar manneskjur,“ segir Litháinn Algirdas Slapikas.

Hópur fólks hefur stofnað Íþróttafélag Litháa á Íslandi sem hefur það að markmiði að gefa ungum sem öldnum tækifæri til íþróttaiðkana og að aðstoða innflytjendur við að aðlagast íslensku samfélagi. „Vegna allra þessara neikvæðu frétta í blöðunum þá er þetta eitthvað sem við viljum að sjálfsögðu að bæti ímynd innflytjenda, sem fáeinir einstaklingar hafa skemmt,“ segir Algirdas, sem er formaður félagsins. Um 1.500 Litháar eru búsettir á Íslandi og ætti efniviðurinn því að vera ágætur fyrir þetta nýstofnaða félag.

Tilurð félagsins var þátttaka körfuboltaliðsins Lituanica í 2. deild karla síðasta haust. Körfuknattleikssamband Íslands, KKÍ, setti það sem skilyrði að stofnað yrði íþróttafélag í kringum liðið og þá fór boltinn að rúlla. Í stjórn félagsins eru þekktir íþróttamenn af litháískum uppruna, þar á meðal Ramune Pekarskyte, handboltakona hjá Haukum, og þau Kristina Kvedarine og Romualdas Gecas sem hafa bæði spilað handbolta hér á landi.

Síðar meir vonast Algirdas til að fótbolti og fleiri íþróttir bætist í flóru félagsins og stefnan hefur verið sett á að taka þátt í utandeildinni í fótbolta í framtíðinni.Tekur hann fram að allir séu velkomnir í íþróttafélagið, bæði innflytjendur og Íslendingar.

„Þetta byrjaði fyrir svona einu ári þegar ég var að undirbúa litháískt körfuboltamót á Ásvöllum. Það var mjög góð aðsókn og þrettán lið mættu. Í haust leyfði KKÍ okkur svo að keppa í 2. deildinni,“ segir hann. Liðið, sem spilar heimaleiki sína í Vogum, hefur spilað sjö leiki, unnið tvo en tapað fimm. „Þetta er góður árangur því við erum bara með tvo sem hafa stundað körfubolta af einhverri alvöru. Við eigum eftir að styrkjast eftir því sem fram líða stundir.“

Hann er einnig mjög ánægður með stuðninginn sem liðið hefur fengið því hópur Litháa mætir á alla leiki liðsins, sem er frekar óalgengt þegar 2. deildin er annars vegar. Sýnir þetta vel samstöðuna sem ríkir innan raða Litháa á Íslandi.freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.