Innlent

Vísar verðbólgumælingum Hagstofunnar á bug

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Samband garðyrkjubænda vísar því á bug að íslenskt grænmeti hafi hækkað um 12% frá því í mars, eins og fram kemur í verðbólgumælingum Hagstofunnar og Greining Íslandsbanka vísar í.

Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að hækkun matvöru og drykkja sé helsti hækkunarvaldur neysluverðsvísitölunnar að þessu sinni. Fyrst og fremst sé um að ræða hækkun á innlendri framleiðslu. Alls hækki innlendar búvörur og grænmeti um 2,2% á milli mánaða á meðan innfluttar mat- og drykkjarvörur hækki um 0,4%.

Bjarni Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands garðyrkjubænda, segir að þrátt fyrir ósk sína til Hagstofunnar um að aðgreina innflutning frá innlendri framleiðslu að þá hafi Hagstofan blandað saman tölum yfir innlenda og erlenda framleiðslu.

„Ég veit það að íslenska grænmetið hefur bara hækkað um það sem samsvarar hækkun á verðlagi. Hins vegar geturðu verið alveg viss um það að erlent grænmeti hefur hækkað um 50-70% á sama tíma," segir Bjarni. Þá segir Bjarni að margir árstíðabundnir þættir skýri hækkun grænmetis á milli mánaða. Það sé því sanngjarnara að bera saman verðlag frá ári til árs í stað þess að bera saman verðlag á milli mánaða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×