Innlent

Meirihlutaviðræður hafnar á Akranesi án Sjálfstæðisflokks

Sveinn Kristinsson vann góðan sigur ásamt flokki sínum í gærkvöldi.
Sveinn Kristinsson vann góðan sigur ásamt flokki sínum í gærkvöldi.

Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir á Akranesi munu hittast í dag klukkan tvö og reyna að mynda meirihlutasamstarf.

Samfylkingin vann stórsigur í bænum og bætti við sig tveimur bæjarfulltrúum og eru nú með fjóra. Framsóknarflokkurinn vann líka góðan sigur og bætti við sig manni og eru því með tvo bæjarfulltrúa. Vinstrihreyfingin grænt framboð heldur sínum bæjarfulltrúa.

Sjálfstæðisflokkurinn var með hreinan meirihluta á Akranesi eftir að bæjarfulltrúi Frjálslynda flokksins fór yfir í Sjálfstæðisflokkinn á miðju kjörtímabili. Þeir tapa tveimur mönnum af fjórum. Í rauninni þrjá ef bæjarfulltrúi Frálslynda flokksins er talinn með.

„Við höfum unnið vel síðasta kjörtímabil í bæjarstjórn auk þess sem við vorum með nýtt og ferskt fólk á lista og góða stefnuskrá," segir Sveinn Kristinsson, oddviti Samfylkingarinnar spurður hverju hann þakkaði góðu gengi flokksins í bænum.

Samfylkingin tapar víða á landinu en vinnur stórsigur á Akranesi. Aðspurður segir Sveinn að umræðan um fjórflokkinn hafi ekki haft mikil áhrif á umræðuna.

„Við fundum fyrir sterkum vilja til breytinga og svo voru bæjarbúar ósáttir við ýmislegt hjá fyrri meirihluta," segir Sveinn um niðurstöðu sveitarstjórnarkosninganna í bænum.

Ekki er ljóst hvenær niðurstöður munu liggja fyrir vegna meirihlutaviðræðna flokkanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×