Innlent

Y-listinn: Getum ekki samþykkt Guðríði sem bæjarstjóra

Boði Logason skrifar
Ásdís Ólafsdóttir segir að Guðríður vilji bæjarstjórastólinn en Y-listinn geti ekki samþykkt það.
Ásdís Ólafsdóttir segir að Guðríður vilji bæjarstjórastólinn en Y-listinn geti ekki samþykkt það.

„Guðríður vill verða bæjarstjóri, og það viljum við alls ekki," segir Ásdís Ólafsdóttir, Y-lista Kópavogsbúa. Eins og hefur komið fram hafa Samfylkingin, Vinstri grænir, Næst besti flokkurinn og Y-listi Kópavogsbúa, fundað síðustu daga um myndun meirihluta í Kópavogi. Flokkarnir hættu að funda klukkan fimm í dag og segir Ásdís að ekki náist samkomulag um hver fær bæjarstjórastólinn.

Y-listi Kópavogsbúa stendur fast á því að ópólitískur bæjarstjóri verði ráðinn, eins og flokkurinn gaf út fyrir kosningar. Ásdís segir að fundir flokkanna hafa gengið mjög vel þar til að umræður um það hver fái bæjarstjórastólinn hófust. „Það er ekkert annað, við höfum náð mjög vel saman. Þetta er bara þessir gömlu flokkar, ég, ég, ég. Ég um mig frá mér til mín."

Hún segir að kjósendur bæjarins hafi gefið ákveðin skilaboð í kosningunum. „Þau töpuðu meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn til samans. Þannig það eru bara skilaboð frá kjósendum að þeir vilja þá ekki heldur."

En er hún bjartsýn að viðræðurnar gangi vel á morgun? „Það er í höndunum á þeim núna, ef þau ætla ekki að halda þessu gömlu flokkakjaftæði til streitu, þá ætti þetta að ganga mjög vel."


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×