Erlent

Óttast kólerufaraldur í kjölfar flóða í Pakistan

Auk þess sem mikill fjöldi fólks hefur misst heimili sín hafa milljónir þurft að flýja þau. Fjöldi fólks gekk með eigur sínar í flóðvatninu og í bráðabirgðabúðir í Mohib Bhanda um helgina.  nordicphotos/afp
Auk þess sem mikill fjöldi fólks hefur misst heimili sín hafa milljónir þurft að flýja þau. Fjöldi fólks gekk með eigur sínar í flóðvatninu og í bráðabirgðabúðir í Mohib Bhanda um helgina. nordicphotos/afp
Minnst 1200 manns hafa látist undanfarna daga í verstu flóðum í sögu Pakistans. Um tvær milljónir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín.

Nokkur hundruð manns tóku þátt í mótmælum gegn ríkisstjórninni á götum úti í Peshawar í gær. Fólkið er óánægt með aðgerðir stjórnvalda í kjölfar flóðanna, og segja þau ekki hafa brugðist nógu vel og hratt við.

Ríkisstjórn landsins segir mörg þúsund björgunarmenn vera á vettvangi og þeir hafi þegar bjargað um 28 þúsund manns og dreift nauðsynjum til fólks. Þá hafi herinn sent 30 þúsund hermenn og margar þyrlur á flóðasvæðin.

Björgunarmenn reyna nú að ná til 27 þúsund manns sem eru innlyksa á heimilum sínum vegna flóðanna. Yfirvöld óttast að þegar náð verður til þessara svæða muni tala látinna hækka verulega og mun meiri eyðilegging koma í ljós. Rauði krossinn segir að á þeim svæðum sem hafa orðið verst úti séu heilu þorpin hrunin.

Óttast er að farsóttir muni breiðast hratt út á flóðasvæðunum. Heimildir herma að í bráðabirgðabúðum sem settar hafa verið upp hafi niðurgangur og kólera þegar gert vart við sig. Reynt er nú að koma í veg fyrir slíka útbreiðslu, því farsóttir af þessu tagi gætu valdið þúsundum dauðsfalla til viðbótar. Lykilatriði er að tryggja aðgang að hreinu vatni, en vatnsból hafa mengast í flóðunum. Til dæmis eru allir brunnar á verstu svæðunum fullir af mold, að sögn yfirmanna hjálparsamtaka. Fjöldi lækna hefur verið sendur í norðvesturhluta landsins til að takast á við farsóttaróttann.

Flóðin koma á erfiðum tímum í Pakistan. Ríkisstjórn landsins var fyrir í veikri stöðu vegna efnahagsvandræða og stríðsins gegn talíbönum sem hefur orðið þúsundum að bana undanfarin ár. Þá er aðeins vika síðan 152 létust í mannskæðasta flugslysi sem orðið hefur í landinu.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, tilkynnti í gær um aukaframlag SÞ til hjálparstarfs í landinu, tíu milljónir dollara. Þá hafa Bandaríkin lofað sömu upphæð og Bretar ætla að verja tíu milljónum punda í hjálpar- og uppbyggingarstarfið.

Enn meiri rigningu er spáð í Pakistan á næstu dögum.

thorunn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×