Stjórn Vinstri grænna tekur undir ályktanir Ungra Vinstri grænna og Vinstri grænna í Reykjavík þar sem því er hafnað að einkaflugher fái aðstöðu á Íslandi. Í ályktun frá stjórninni sem samþykkt var í gær segir að það sé óásættanlegt með öllu að hér fari fram hernaðarstarfsemi undir yfirvarpi atvinnusköpunar og skorar stjórnin á ríkisstjórn VG og Samfylkingar að hafna slíku fortakslaust nú þegar.
Það var á síðasta miðvikudag sem Fréttablaðið greindi frá því að hollenska fyrirtækið E.C.A. Program hefði hug á því að skrá flugflota fyrirtækisins hér á landi. Fyrirtækið er með áform um 200 milljarða króna fjárfestingu og vill meðal annars byggja viðhalds- og þjónustustöð með á þriðja hundrað íslenskra starfsmanna á Keflavíkurflugvelli.
Skiptar skoðanir hafa verið á ágæti þessara hugmynda. Björgvin G. Sigurðsson og Róbert Marshall, þingmenn Samfylkingarinnar, hafa lýst stuðningi við hugmyndirnar en Steinunn Valdís Óskarsdóttir samflokkskona þeirra er á móti þeim.
