Lífið

Semur fyrir dansverk

Ferskur Ólafur Arnalds.
Ferskur Ólafur Arnalds.

Ólafur Arnalds semur tónlistina í dansverkinu Endalaust sem Íslenski dansflokkurinn æfir nú. Verkið er eftir Alan Lucien Öyen, ungan norskan danshöfund sem hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín.

Alan hefur getið sér gott orð fyrir falleg, tilfinninga­rík og ljóðræn verk með djúpri innri merkingu. Hann notar talað orð og myndbandsverk í nýja dansverkinu og skapar sérstakan söguþráð í anda heimildar­myndar. Áhorfendum eru birt brot úr hugsunum, endurminningum og hugleiðingum um horfna ástvini.

Hinn liðlega tvítugi Ólafur Arnalds hefur selt þúsundir hljómplatna og fyllt tónleikahallir víða um heim, þar á meðal Barbican Hall í London.

Ólafur klæðir klassísk áhrifin í strigaskó og blandar rafrænum hljóðum og trommutöktum við hefðbundin hljóðfæri sinfóníunnar. Útkoman þykir fersk og gengur vel í nútímahlustandann.

Endalaust verður frumsýnt hinn 4. febrúar á stóra sviði Borgarleikhússins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.