Handbolti

Alexander: Óli mun ná sér á strik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Mynd/Anton

„Það var kannski bara fínt að við náðum þó jafntefli þó svo að Óli hafi ekki verið góður í gær. Þá er þetta allt í lagi,“ sagði Alexander Petersson við Vísi í dag.

Ísland gerði í gær jafntefli við Serbíu, 29-29, á fyrsta leik sínum á EM í Austurríki, eftir að hafa verið með forystuna nánast allan leikinn.

„Við byrjuðum mjög vel og það var mjög gaman hjá okkur á vellinum. Allir voru að berjast eins og vitleysingar. Ég veit svo ekki hvað gerðist í hálfleik því það var eins og allt annað lið hafi mætt til leiks í síðari hálfleiknum. Ég veit ekki hvort við vorum orðnir þreyttir en við vorum alla vega ekki nærri því nógu ákveðnir og í fyrri hálfleik.“

Hann segir að það hafi líka haft mikið að segja að lykilmenn eins og Ólafur Stefánsson hafi ekki náð sér á strik.

„Óli var ekkert spes í gær en ég veit að hann kemur aftur. Hann gerir það alltaf.“

Á morgun mætir Ísland gestgjöfunum hér í Austurríki og reiknar Alexander með erfiðum leik.

„Ég á von á mjög erfiðum leik - erfiðari en gegn Serbíu. Austurríki er með sterkt lið og Dagur [Sigurðsson] er góður þjálfari. Hann er með allt sitt á hreinu og ég tel að Austurríkismenn séu óútreiknanlegri en Serbarnir.“

„Þeir eru að vísu ekki með jafn stórar skyttur og Serbarnir en þeir eru mjög ákveðnir í öllum sínum aðgerðum. Það er því mikilvægt að við verðum sterkir einn á móti einum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×