Enski boltinn

Frábær endurkoma hjá Man. Utd

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Úr leik liðanna í dag. Nordic photos/getty images
Úr leik liðanna í dag. Nordic photos/getty images

Eftir að hafa verið nær meðvitundarlausir í tæpar 80 mínútur rifu leikmenn Man. Utd sig upp gegn Aston Villa. Unnu upp tveggja marka forskot Villa og tryggðu sér jafntefli, 2-2.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en það lifnaði yfir leiknum í þeim síðari. Aston Villa var mikið betra liðið í síðari hálfleik og lék vörn United grátt hvað eftir annað.

Þegar 20 mínútur lifðu leiks snéri Gabriel Agbonlahor á Nemanja Vidic, gaf í teiginn á Ashley Young sem var kominn einn í gegn. Wes Brown braut á honum og víti dæmt.

Young tók vítið sjálfur og skoraði af miklu öryggi.

Aðeins fimm mínútum síðar skoraði Villa aftur. Villa-menn galopnuðu vörn United með frábæru spili og Marc Albrighton skoraði af stuttu færi.

Leikmenn United gáfust ekki upp og Federico Macheda minnkaði muninn tíu mínútum fyrir leikslok með glæsilegu marki. Honum líkar greinilega vel að spila gegn Villa en honum skaust upp á stjörnuhimininn er hann skoraði frægt mark gegn Villa.

Markið gaf United kraft og aðeins fjórum mínútum síðar jafnaði Nemanja Vidic metin með skallamarki eftir frábæran undirbúning frá Nani.

2-2 og United ekkert búið að geta nema þessar síðustu fimm mínútur í leiknum.

United sótti nokkuð á lokamínútunum og var ekki fjarri því að stela sigrinum. Jafntefli þó niðurstaðan í dramatískum síðari hálfleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×