Innlent

Tugir starfsmanna ráðnir til sérstaks saksóknara

Ragna Árnadóttir.
Ragna Árnadóttir. Mynd/Daníel Rúnarsson

Ragna Árnadóttir dómsmála­ráðherra hyggst leggja fram tillögu fyrir ríkis­stjórn í vikunni um að embætti sérstaks saksóknara verði eflt til muna. Þetta segir hún í viðtali við Fréttablaðið í dag. Nefnd þriggja ráðuneyta, dómsmála-, fjármála- og forsætisráðuneyta, fer nú yfir rekstraráætlun.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins verður tugum starfsmanna bætt við embættið.

„Það er ljóst að það þarf að efla embættið. Það þarf að fjölga starfsmönnum. Sú vinna er í gangi að greina það hversu marga starfsmenn þarf og hvað það kostar. Ég vonast til að það verði komin niðurstaða í það mál í næstu viku," segir Ragna.

Dómsmálaráðherra hefur einnig kallað eftir upplýsingum úr dómskerfinu um hvernig best er að efla það. Hún segir brýnt að þær tillögur komi frá dómsvaldinu. Fyrirséð er að mikið álag verði á embætti sérstaks saksóknara á næstu dögum. Enda er samkvæmt heimildum Fréttablaðsins stefnt að því að nýta tímann á meðan Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson sitja í gæsluvarðhaldi til að yfirheyra alla þá sem tengjast meintum lögbrotum þeirra í störfum þeirra fyrir Kaupþing. Um er að ræða á þriðja tug sakborninga og vitna.

Þrír fyrrverandi stjórnendur úr Kaupþingi hafa verið kallaðir til landsins til yfirheyrslna eftir helgi. - kóp, sh /






Fleiri fréttir

Sjá meira


×