Innlent

„Verðum að bíta í það súra epli“

Nokkuð magn jarðarberja sem flytja átti hingað með flugi liggur undir skemmdum í Hollandi.
Nokkuð magn jarðarberja sem flytja átti hingað með flugi liggur undir skemmdum í Hollandi.
Fersk jarðarber, kryddjurtir og viðkvæmar káltegundir með stuttan líftíma mun skorta hér á landi til skamms tíma vegna röskunar á millilandaflugi til meginlands Evrópu. Ávextir og grænmeti með lengri líftíma eru yfirleitt flutt hingað sjóleiðina.

Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri Banana, segir viðbúið að fersk jarðarber muni vanta í veislur. Hverja sendingu þarf að panta með tveggja daga fyrirvara.

Eggert Árni Gíslason, framkvæmdastjóri Mötu, segir ferskar vörur fluttar inn frá Hollandi tvisvar til þrisvar í viku. Ein sending hefur fallið niður hjá fyrirtækinu. Vörurnar bíða enn á flugvellinum úti og reiknar Eggert með því að þær fari ekki lengra en í ruslið. Ekki er um verulegt magn að ræða. Vonast er til að flug komist nú í samt lag að hluta eftir röskun í tæpa viku. Frestist flug frá meginlandinu frekar er hægt að flytja inn ávexti og grænmeti frá Bandaríkjunum. Verð þar er hins vegar mun hærra en í Evrópu.

Eggert segir ekki liggja fyrir hversu mikið röskun á flugi kostar Mötu. Hann reiknar með að málin skýrist fljótlega og verður þá kannað hvort fyrirtækið sé tryggt fyrir skakkaföllum sem þessum. „Við verðum líklega bara að bíta í það súra epli,“ segir hann. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×