Innlent

Steingrímur útilokar ekki nýjar samningaviðræður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon segir að unnið sé að því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann útilokar þó ekkert. Mynd/ Anton.
Steingrímur J. Sigfússon segir að unnið sé að því að halda þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann útilokar þó ekkert. Mynd/ Anton.
Steingrímur J. Sigfússon útilokar ekki nýjar samningaviðræður með Bretum og Hollendingum um Icesave. Nú sé ríkisstjórnin hins vegar að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, hvatti til þess í grein í Fréttablaðinu í dag að ný samninganefnd yrði skipuð.

„Það sem er verið að gera núna er að það er verið að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekna niðurstöðú í málinu og það er auðvitað ekkert í neinu plati," segir Steingrímur. Þeir sem biðji um eitthvað annað verði að útskýra hvort þeir séu að biðja um að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram eða ekki.

Steingrímur bendir á að í milliríkjadeilu þurfi báðir aðilar að samþykkja samningaviðræður. „Menn yrðu fyrst að þreifa fyrir sér hvort slíkt yrði í boði af hálfu gagnaðilanna. Ég er ekki viss um að það sé litið þannig á að hálfu Breta og Hollendinga," segir Steingrímur. Þeir telji ef til vill frekar að þörf sé á þvi að þeir samningar sem gerðir hafi verið séu kláraðir.

„Með þessu er ég þó ekki að segja að við höfnum einhverjum möguleika. Formleg staða er þó þessi að það er að hefjast undirbúningur þjóðaratkvæðagreiðslu og það eru engin efni til að gefa undir fótinn með annað að svo stöddu en að hún fari fram," segir Steingrímur.

Aðspurður um þau samtöl sem íslensk stjórnvöld hafi þegar átt við fulltrúa Breta og Hollendinga eftir að forsetinn synjaði lögunum staðfestingar segir Steingrímur að þau hafi verið til að lægja öldur. „Og reyna að tryggja að deilan vindi ekki upp á sig og reyna að leiðrétta misskilning sem fór sumpart í loftið," segir Steingrímur.

Steingrímur heldur til Noregs og Danmerkur í dag og mun tala við fjármálaráðherra þar og aðra ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×