Innlent

Færri brjóstastækkanir

Eftirspurn eftir lýtaaðgerðum hefur dregist saman um næstum fjórðung á síðustu mánuðum. Einkum hefur þeim fækkað sem sækjast eftir fitusogi og brjóstastækkunum.

Lýtalæknar hafa ekki farið varhluta af samdrætti í þjóðfélaginu en síðustu mánuði hefur eftirspurn eftir lýtaaðgerðum dregist töluvert saman.

„Ég myndi segja að það væri kannski 20 til 30% minnkun nú þegar eða í farvatninu næstu vikur," segir Guðmundur Már Stefánsson, lýtalæknir.

Nokkuð er um að þeir sem þegar hafi bókað aðgerðir óski eftir því að fresta þeim þar sem þeir hafi ekki efni á aðgerðunum eins og stendur. Guðmundur segir samdráttinn jafnt eiga við um lýtaaðgerðir sem og fegrunaraðgerðir.

„Hið opinbera vill ekki lengur taka þátt í kostnaði við algengar aðgerðir sem áður voru inni í kerfinu, til dæmis að taka góðkynja fæðingarfletti, laga ör og margar laseraðgerðir. Aðgerðir sem ríkið tók þátt í að borga áður er nú greitt að fullu af sjúklingum og þar af leiðandi dregur úr eftirspurn."

Guðmundur segir mestan samdrátt í fitusogi og brjóstastækkunum. Færri ungar konur fara líka í aðgerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×