Lífið

Gerir amerískan gítarsamning

Dave Dunn, lengst til vinstri, er gítarleikari í hljómsveitinni Dust og hefur skrifað undir samning við Gadow Guitars.
Dave Dunn, lengst til vinstri, er gítarleikari í hljómsveitinni Dust og hefur skrifað undir samning við Gadow Guitars.

„Ég var að leita að gítar og komst í samband við eigandann. Hann bauð mér gítar á góðum afslætti út af hljómsveitinni,“ segir Dave Dunn úr hljómsveitinni Dust.

Dave Dunn hefur skrifað undir sérstakan listamannasamning við bandaríska gítarframleiðandann Gadow Guitars. Dave er hálfíslenskur og spilar á gítar í hljómsveitinni Dust, en margir kannast við söngvarann, Arnar Már Friðriksson, sem lenti í öðru sæti í raunveruleikaþættinum Bandið hans Bubba árið 2008.

„Ég er ekki búinn að prófa gítarinn enn þá, hann verður handsmíðaður í Bandaríkjunum – þannig að hann ætti að vera góður,“ segir Dave. „Það gæti tekið einhverja mánuði að smíða hann. Það er spes háls og rafkerfi fyrir mig.“

Ryan Gadow, framkvæmdastjóri Gadow Guitars, staðfestir þetta. „Já, það er rétt. Dave hefur skrifað undir listamannasamning við Gadow Guitars,“ segir hann, Gadow er lítill framleiðandi, en fyrirtækið var stofnað árið 1999.

Dave segist hafa notað Gibson gítara í gegnum tíðina, en sé nú tilbúinn að skipta um lið. „Ég kunni ekki að meta hitt og þetta á öðrum gíturum, þannig að ég fór að leita að einhverju öðru,“ segir Dave, sem er þögull sem gröfin þegar hann er spurður nánar út í samninginn. „En ég fæ gítarinn á mun lægra verði en gengur og gerist úti í búð.“ - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.