Innlent

Víða um land er tími kominn á hræringar

Myndin er tekin fyrir nærri tveimur árum þegar hópur fólks gekk á Heklu. Á toppi hennar er gjarnan snjólaust vegna hita og gass sem stígur upp úr kvikuhólfum undir niðri. Bændur hafa vakið á því athygli að á kafla í suðurhlíðum fjallsins sé nú snjólaust, en goss hefur verið vænst í fjallinu um nokkurt skeið.Fréttablaðið/GVA
Myndin er tekin fyrir nærri tveimur árum þegar hópur fólks gekk á Heklu. Á toppi hennar er gjarnan snjólaust vegna hita og gass sem stígur upp úr kvikuhólfum undir niðri. Bændur hafa vakið á því athygli að á kafla í suðurhlíðum fjallsins sé nú snjólaust, en goss hefur verið vænst í fjallinu um nokkurt skeið.Fréttablaðið/GVA

Jarðfræði Margt bendir til að hafið sé tímabil aukinnar jarðvirkni hér á landi, segir Ragnar Stefánsson, prófessor í jarðvárfræðum við Háskólann á Akureyri. Hann segir Suðurlandsskjálftana 2000 og 2008 kunna að hafa breytt aðstæðum á Suðurlandi og út á Reykjanes.

Þá segir Ragnar víðar beðið jarðhræringa en í Heklu, en frá því hefur verið greint í fréttum að í henni sé þrýstingur í kvikuhólfum sambærilegur því sem var fyrir síðasta gos, auk þess sem hún „sé á tíma“ miðað við fyrri gos. Þannig megi út af fyrir sig vænta goss í Heklu og jafnvel víðar miðað við þá atburðarás sem verið hefur í seinni tíð.

„En það er nú þannig í náttúrunni að hún fylgir ekki alltaf svona tölfræði. Frá síðasta gosi í Heklu hafa orðið gríðarlegar breytingar með Suðurlandsskjálftunum. Þá verður mikil færsla um allt Suðurland og aðstæður breytast mjög. Ekki er ólíklegt að tímaröðin sem varð í Heklu frá 1970 raskist.“

Ragnar segir því ómögulegt að spá fyrir um hvenær Hekla kunni að gjósa, aðdragandi að smágosum í henni hafi verið skammur og ekki annað að gera en vakta vel jarðskjálftamæla. Þá þurfi ekki að vera vísbending um gos þótt snjór bráðni hér og þar í fjallinu. Gufa og hiti geti leitað upp vegna kvikuhreyfinga á fimm til tíu kílómetra dýpi og valdið snjóbráð, án þess að gos sé í vændum.

„Varðandi Kötlugos þá reikna menn hins vegar með meiri og skýrari aðdraganda, jafnvel í sólarhring á undan,“ segir Ragnar, en aðdragandi stórgosa úr eldkeilum sé lengri en þekkist frá smágosum seinni ára í Heklu. „Sama gildir um stór Heklugos, líkt og 1947 og þaðan af stærri Heklugos í fortíðinni. Aðdragandi er miklu lengri að þeim.“

Eftir því sem best er vitað segir Ragnar tíma kominn á hræringar víða um land. „Bara hérna á Reykjanesskaganum, vestur af Henglinum, finnst manni kominn tími á einhverja jarðskjálftavirkni meira en verið hefur. Eins er það á miðhálendinu, suður af Öskju og milli Öskju og Bárðarbungu. Þar eru í gangi smáskjálftar sem benda til þess að einhver kvikuinnskot spenni upp svæðið.“

Aukinheldur segir Ragnar að tími sé kominn á meiri háttar skjálfta á Húsavíkur-Flateyjarsprungunni, sem kynni að verða meira úti í sjó, þótt það sé ekki öruggt.

„En þótt margt sé komið á tíma, þá getur tekið áratugi að eitthvað gerist í því.“olikr@frettabladid.is

Varað við hættu Skilti sem er til reiðu við Mýrdalssand og notað til að loka veginum þar um skapist hættu­ástand vegna goss í Kötlu. Mynd/Njörður Helgason



Fleiri fréttir

Sjá meira


×