Lífið

Góðgerðarplata fór á toppinn

Hljómsveitin Coldplay er ein þeirra sem á lag á góðgerðarplötunni vinsælu.
Hljómsveitin Coldplay er ein þeirra sem á lag á góðgerðarplötunni vinsælu.

Ný góðgerðarplata til styrktar fórnarlömbum jarðskjálftans á Haítí fór beint í efsta sæti bandaríska vinsældarlistans eftir að hún kom út. Platan er jafnframt sú fyrsta sem er aðeins gefin út í stafrænu formi sem kemst í efsta sæti listans.

Platan hefur selst í 171 þúsund eintökum og hefur að geyma tónlist sem var flutt í sjónvarpssöfnun sem var sýnd í beinni útsendingu á dögunum, þar sem um sjö milljarðar króna söfnuðust. Þar stigu á svið flytjendur á borð við Jay-Z, Madonna, Coldplay, Beyonce og U2. Söfnunin var sýnd víða um heim og voru áhorfendur um 83 milljónir. Aðrir sem sungu til styrktar fórnarlömbunum voru Wyclef Jean, sem er frá Haíti, Bruce Springsteen, Jennifer Hudson, Rihanna og Stevie Wonder.

Fleiri vilja leggja sitt af mörkum til söfnunarinnar. Upptökustjórinn Quincy Jones ætlar að gera nýja útgáfu af laginu We Are The World sem var tekið upp árið 1985 í baráttunni gegn hungursneyð í Afríku. Lagið var samið af Michael Jackson og Lionel Richie og á meðal þeirra sem sungu voru Billy Joel, Tina Turner og Bono. Ekki hefur verið ákveðið hverjir syngja í nýju útgáfunni, sem verður tekin upp í Los Angeles á mánudaginn.

Talið er að hátt í 200 þúsund manns hafi farist í jarðskjálftanum í Haítí og skiptir hver króna miklu máli í björgunarstarfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.