Innlent

Hollendingarnir frjálsir ferða sinna

Hollendingarnir sem handteknir voru á Seyðisfirði um helgina hafa verið látnir lausir. Þeim var sleppt í rétt fyrir miðnætti í gær að sögn Karls Steinars Valssonar yfirmanns fíkniefnadeildarinnar. Þremenningarnir eru allir í áhöfn skips sem kom til hafnar á Seyðisfirði á laugardag en leit var gerð um borð í skipinu. Rannsóknin er unnin í samvinnu við lögregluyfirvöld í Hollandi og tengist haldlagningu á þremur tonnum af marijúana þar í landi.

Að sögn Karls Steinars var ekki metið tilefni til þess að halda mönnunum lengur og því eru þeir frjálsir ferða sinna. Málið er þó enn í skoðun hjá lögreglunni.

Aðgerðin hér á landi er víðtæk en að henni hafa komið Landhelgisgæslan, lögreglu- og tollyfirvöld á Austurlandi auk lögreglumanna frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og embætti ríkislögreglustjóra sem og tollvarða frá Tollstjóranum í Reykjavík. Það var að beiðni sýslumannsembættisins á Seyðisfirði sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók við rannsókn málsins.






Tengdar fréttir

Gerðu ítarlega leit í skipi við Seyðisfjarðarhöfn

Ekki liggur fyrir hvort þrír Hollendingar, sem voru handteknir um borð í gömlu fiskiskipi í Seyðisfjarðarhöfn, hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um fíkniefnamisferli, en fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur tekið við rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×