Innlent

Hollendingar handteknir á löskuðu skipi grunaðir um smygl

Seyðisfjörður. Mynd úr safni.
Seyðisfjörður. Mynd úr safni. Mynd Einar Bragason

Þrír menn hafa verið handteknir vegna gruns um fíkniefnasmygl en þeir komu á löskuðu skipi til Seyðisfjarðar á laugardaginn. Þetta kom fram í fréttum RÚV.

Þar sagði enn fremur að mennirnir hafi sagst vera á leiðinni til Grænlands en ekki er vitað hvaðan þeir komu. Það er þó talið víst að skútan sem þeir sigldu á er skráð á Saint Vincent eyjuna í Karíbahafinu samkvæmt RÚV.

Samkvæmt RÚV þá leituðu hundar í skipinu í dag og einnig kafarar í höfninni. Þá voru tekin málningarsýni af skipshliðinni til að kanna hvort skipið hefði lagst að öðrum skipum til að afhenda eða taka á móti smyglvarningi.

Greinilegt er að skipið hefur orðið fyrir einhverjum skakkaföllum því aftara mastrið er laskað og bogið og hliðin rispuð. Hollendingarnir þrír sem sigldu skipinu til hafnar hafa verið yfirheyrðir í dag.

Fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fer með málið samkvæmt RÚV. Ekki er vitað hvaða tegund efna eiga að hafa verið um borð í skútunni. Ekki náðist í yfirmann fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×