Innlent

Háskólastarfi stefnt í hættu

Gangi niðurskurðarhugmyndir í menntamálum eftir getur þjóðin setið uppi með sjö laskaða háskóla, segir forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ. Framlög til háskólanna hér eru þau lægstu á öllum Norðurlöndunum.
Gangi niðurskurðarhugmyndir í menntamálum eftir getur þjóðin setið uppi með sjö laskaða háskóla, segir forseti heilbrigðisvísindasviðs HÍ. Framlög til háskólanna hér eru þau lægstu á öllum Norðurlöndunum. Mynd/Pjetur
Sigurður Guðmundsson, forseti heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og fyrrverandi landlæknir, telur að gangi niðurskurðarhugmyndir stjórnvalda í menntamálum eftir muni Háskóli Íslands verða færður áratugi aftur í tímann hvað varðar gæði kennslu og rannsókna.

Sigurður gengur reyndar svo langt að segja að þjóðin muni sitja uppi með sjö veika háskóla að óbreyttu. Hann segir hagræðingu með sameiningu eða víðtæku samstarfi háskólanna borðleggjandi lausn í því árferði sem nú ríki hér á landi. "Þetta er staðreynd sem allir veigra sér við að segja upphátt. Fjölgun háskólanna var tilraun sem ég tel að hafi mistekist", segir Sigurður.

Fyrir liggur að hagræða þarf um 40 milljarða hjá ríkinu. Fjárframlög til háskólanna gætu verði skorin niður um 15 til 30 prósent til ársins 2013 miðað við fjárlög ársins 2010. "Ef HÍ, þar sem ég þekki best til, verður skorinn svo grimmilega niður á nokkrum árum verður það ekki sami skólinn og hann er núna."

Sigurður telur rannsóknir og kennslu við HÍ góða, sama hvaða mælikvarðar séu notaðir við slíkt mat. Það sýni jafnframt úttektir Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD). Hann bendir á að það taki aðeins augnablik að rífa það niður sem fagfólk háskólans hefur byggt upp á 100 árum en áratugi taki að vinna það aftur til baka.

"Við erum mörg jafnframt þeirrar skoðunar að það séu engin rök fyrir því, jafnvel í góðæri, að kenna lögfræði í fjórum skólum, viðskiptafræði í þremur og verkfræði í tveim skólum. Þjóð sem telur rúmlega 300 þúsund manns hefur líklega ekkert með sjö háskóla að gera." Sigurður telur að besta leiðin sé sameining skólanna eða víðtækt samstarf; undan því verði ekki vikist. Faglega verði þannig hægt að halda úti öflugri kennslu og rannsóknum.

Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst, sem lætur af störfum í sumar, er Sigurði ósammála hvað varðar sameiningu háskólanna. Hann segir að sérhæfing allra skólanna sé með þeim hætti að hún réttlæti rekstur þeirra í óbreyttri mynd. Hins vegar sé það umhugsunarefni að opinber framlög til háskólastigsins sem hlutfall af landsframleiðslu séu mun lægri á Íslandi en á Norðurlöndunum, eða sem nemur 35 til 65 prósentum. -shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×