Innlent

Bauð Önnu bensín á bílinn eða barnapíu

Magnús Scheving
Magnús Scheving
„Ég fékk hringingu frá honum Magnúsi Scheving, takk," segir Anna Vallý Baldursdóttir, sem hætti við að fara á fyrirhugaða Latabæjarhátíð vegna þess að borga þarf fullt aðgöngumiðaverð fyrir alla, líka níu mánaða börn.

Anna Vallý hugðist fara með níu mánaða dóttur sína í fanginu á Latabæjarhátíðina til þess að eldri dóttir hennar, sem er fjögurra ára, kæmist á sýninguna. Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær sagðist Anna eiga erfitt með að fá pössun fyrir þá yngri því foreldrar hennar búa á Akranesi.

Að sögn Önnu hringdi Magnús Scheving, stofnandi Latabæjar og Íþróttaálfurinn sjálfur, í hana eftir að Fréttablaðið sagði frá máli hennar í gær. Hún segir Magnús hafi sagst lítið geta gert varðandi aðgöngumiðana þar sem það væri ekki hans fyrirtæki sem skipulegði Latabæjarhátíðina.

„Magnús sagðist skilja mig en þótt hann myndi alveg vilja hleypa mér ókeypis inn með alla fjölskylduna þá hefði hann engan rétt til þess. Hins vegar bauðst hann til borga bensín á bílinn til að koma barninu upp á Akranes í pössun eða þá að borga barnapíu því hann vildi endilega að ég kæmi með þessa fjögurra ára til sín á sýninguna. Svo bauð hann mér að koma með báðar stelpurnar í heimsókn í Latabæjarstúdíóið því þar væru ekki eins mikil læti og á sýningunni," segir Anna sem er hikandi við að þiggja boð Magnúsar.

„Hann sagði að það yrði gaman fyrir þessa fjögurra ára að koma en af því að ég fór svona langt með málið þá situr það aðeins í mér svo ég er ekki viss. En ég þakkaði honum æðislega vel fyrir og sagði að hann væri yndislegur að bjóða mér þetta."

Hjá Latabæ vildu menn ekki tjá sig um þetta mál í gær.

gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×