Fótbolti

Bendtner vonast eftir því að verða markakóngur HM í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nicklas Bendtner, leikmaður Arsenal og danska landsliðsins.
Nicklas Bendtner, leikmaður Arsenal og danska landsliðsins. Mynd/AFP
Nicklas Bendtner, leikmaður Arsenal og danska landsliðsins, ætlar sér að skora mörk fyrir danska landsliðið á HM í Suður-Afríku í sumar. Bendtner er að ná sér góðum af nárameiðslum en segist verða tilbúinn í fyrsta leik.

„Ég verð pottþétt með á HM. Ég vona að ég nái að skora mörg mörk og nái að verða markakóngur á HM. Það yrði frábært," sagði Bendtner í viðtali við Dagbladet.

Nicklas Bendtner skoraði 6 mörk í 26 leikjum með Arsenal á þessu tímabili en fór oft ansi illa með færin sín. Hann stefnir hærra en að spila fyrir Arsene Wenger hjá Arsenal.

„Stærsti draumurinn minn er að spila fyrir risafélögin á Spáni. Ég veit að ég á möguleika á að komast þangað," sagði Bendtner og átti þá við Barcelona eða Real Madrid.

„Ég hef ekkert unnið neitt ennþá og hef ekki náð að verða markakóngur. Þegar ég verð búinn að afreka slíkt þá get ég farið að horfa á sjálfan mig í öðru ljósi. Ég vonast til að verða frábær leikmaður og að allir tali um mig sem einn af bestu framherjum heims," sagði Bendtner.

Fyrsti leikur Dana á HM er á móti Hollandi 14. júní en Kamerún og Japan eru einnig í þessum riðli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×