Fótbolti

Gareth Barry mikilvægasti hlekkur Englands?

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Barry haltrar af velli í leik með Manchester City. Þessi meiðsli hrjá hann enn og setja plön Fabio Capello í uppnám.
Barry haltrar af velli í leik með Manchester City. Þessi meiðsli hrjá hann enn og setja plön Fabio Capello í uppnám. GettyImages

Gareth Barry virðist vera lykillinn að velgengni Englendinga á HM. Hann er að jafna sig eftir meiðsli og alls óvíst er að hann nái að beita sér að fullu í mótinu.

Fabio Capello vill nota Barry með Frank Lampard á miðjunni og Steven Gerrard fyrir framan þá, annaðhvort úti til vinstri eða þá rétt fyrir aftan Wayne Rooney.

Ef Barry er ekki í standi er komin upp vandræðastaða þar sem enska landsliðið á hreinlega ekki almennilegan miðjumann að því er virðist, til að spila með Lampard. Fullreynt er að láta Lampard og Gerrard spila saman á miðjunni.

Kappar eins og Michael Carrick, James Milner og Tom Huddlestone hafa staðið sig svo illa að talað er um að Ledley King þyrfti jafnvel að spila á miðjunni. Raunar er fáránlegt að enska landsliðið sé í jafn miklum vandræðum með að stilla upp liðinu sínu en það virðist ekki eiga nógu marga góða markmenn, miðjumenn eða vinstri kantmenn sem geta spilað sem heild.

"Barry er alltaf í liðinu hjá mér. Hann er einn af mikilvægustu leikmönnum okkar," sagði Capello sem tilkynnir endanlegan leikmannahóp sinn á þriðjudaginn.

Þá er einnig ekki ljóst hjá Capello hvernig hann nær sem mestu út úr Wayne Rooney. Er það með Gerrard rétt fyrir aftan hann og þá annan mann á vinstri kanti, sem er algjörlega óljóst hver ætti að vera, eða þá með Peter Crouch sem er með ótrúlegt tölfræðiskor fyrir enska landsliðið?

Þá eru markmannsmálin óleyst og Capello mun því hafa í nógu að snúast fyrir HM, sem hefst eftir tvær vikur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×