Innlent

Vilhelm boðið í tvö atvinnuviðtöl

Jón Gerald Sullenberger
Jón Gerald Sullenberger
Fólk Vilhelm Sigurjónssyni, þroskahömluðum manni sem rekinn var úr starfi sínu hjá Nettó í síðustu viku, hefur verið boðin vinna hjá Kosti. Þá hefur honum einnig verið boðið í atvinnuviðtal í Melabúðinni.

Vilhelm hafði séð um innkaupakerrur hjá Nettó í Mjódd í tvö ár og brottrekstur hans með tíu mínútna fyrirvara vakti hörð viðbrögð. Fólk hefur jafnvel ákveðið að sniðganga verslanir Nettó.

Jón Gerald Sullenberger í Kosti segist fyrst hafa frétt af málinu um kvöldmatarleytið í gær og hringt strax í föður Vilhelms og boðið stráknum vinnu. „Mér finnst svona framkoma fyrir neðan allar hellur. Við hljótum að finna eitthvað fyrir strákinn að gera. Það eru að koma jól og við eigum að vinna saman, ekki á móti hvert öðru,“ segir Jón Gerald. Búðin sé að verða eins árs og það gæti orðið besta afmælisgjöfin að fá Vilhelm til starfa.

Pétur Alan Guðmundsson í Melabúðinni segir að hann hafi frétt að Vilhelm væri á lausu og heyrt vel af honum látið. Því hafi verið sjálfsagt að boða hann í viðtal. „Fyrir gott fólk er alltaf hægt að finna starf,“ segir hann.

Sigurjón Þór Hafsteinsson, faðir Vilhelms, segir að hann hafi ekki rætt tilboðin við son sinn enn. Þá hafi ekki verið rætt við Atvinnu með stuðningi, sem mun þurfa að koma að málum. Ekkert sé því ráðið enn. - sh



Fleiri fréttir

Sjá meira


×