Man. City gerði grönnum sínum í Man. Utd mikinn greiða í dag er liðið lagði Chelsea, 2-4, á Stamford Bridge í dag. Chelsea er aðeins með eins stigs forskot á toppi deildarinnar eftir leikinn og bæði lið hafa leikið jafn marga leiki. Man. City komst aftur á móti upp í fjórða sætið með sigrinum.
Carlos Tevez var kominn aftur í lið Man. City en liðið hefur saknað hans sárlega í síðustu leikjum.
Leikurinn fór frekar rólega af stað en það var allt að gerast á lokamínútum hálfleiksins. Frank Lampard kom Chelsea yfir á 42. mínútu en Carlos Tevez jafnaði í uppbótartíma hálfleiksins.
Það kom löng sending fram völlinn, John Terry missti af boltanum og Tevez komst inn í teig. Hann átti arfaslakt skot að marki en Hilario var fáranlega staðsettur og boltinn lak í netið.
Það var síðan á 51. mínútu sem Craig Bellamy kom Chelsea yfir. Hann komst þá inn í teig, var í þröngu færi en skoraði samt. Aftur hefði Hilario getað gert betur.
Á 75. mínútu varð umdeilt atvik. Belletti virtist brjóta á Gareth Barry, vítaspyrna dæmd og Belletti vikið af velli. Tevez tók vítið og skoraði af miklu öryggi.
Chelsea var ekki hætt að safna rauðum spjöldum. Á 81. mínútu var kominn mikill pirringur í Michael Ballack. Hann braut á Tevez á fáranlegan hátt, fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt. Glórulaus hegðun hjá Ballack.
Á 87. mínútu fullkomnaði Craig Bellamy niðurlægingu Chelsea með sínu öðru marki og fjórða marki Man. City.
Anelka nældi í víti í uppbótartíma, Lampard tók vítið og skoraði af miklu öryggi.
Það snérist allt um Wayne Bridge og John Terry í dag. Stuðningsmenn Chelsea bauluðu mikið á Bridge allan leikinn og sérstaklega þegar hann var tekinn af velli á 78. mínútu.