Lífið

Selur listaverk fyrir íbúa Haítí

Guðmundur Rúnar Lúðvíksson
Listamaðurinn er að skipuleggja myndlistarsýningu þar sem allur ágóðinn rennur til fórnarlamba skjálftans á Haítí.
mynd/spessi
Guðmundur Rúnar Lúðvíksson Listamaðurinn er að skipuleggja myndlistarsýningu þar sem allur ágóðinn rennur til fórnarlamba skjálftans á Haítí. mynd/spessi

Listamaðurinn Guðmundur Rúnar Lúðvíksson er að skipuleggja myndlistarsýningu þar sem allur ágóðinn rennur til fórnarlamba jarðskjálftans á Haítí.

„Þetta gengur út á að smala sem flestum saman og að hver þeirra gefi eitt verk sem er verðmetið á 60 til 600 þúsund en selt á 15 þúsund kall," segir Guðmundur Rúnar. Hann er þessa dagana að kynna verkefnið fyrir kollegum sínum og vonast eftir góðum undirtektum. „Mér finnst við ekki getað verið undanskildir þessu hjálparstarfi. Tónlistarmenn eru að taka að sér hluti og fólkið í landinu líka. Mér finnst við eigum að taka þátt í svona verkefni, að skapa betri heim," segir Guðmundur.

Spurður hvort listamenn séu tilbúnir til að selja rándýr verk sín á fimmtán þúsund krónur segir hann að málið snúist ekki um það. „Ég hugsa að ég myndi sjálfur láta verk, sem ég er að selja á 700 þúsund, fara.

Þetta er spurning um hvers virði 15 þúsund kallinn sé. Hann er 300-400 þúsund króna virði úti á Haítí."

Guðmundur fékk hugmyndina að verkefninu eftir að hafa frétt af sams konar verkefnum úti í heimi. Hann hvetur alla listamenn sem vettlingi geta valdið að taka þátt en nánari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu hans 1og8.com. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.