Innlent

Skrifað undir samning um byggingu nýs hjúkrunarheimilis

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Félags- og tryggingamálaráðherra og bæjarstjórinn í Hafnarfirði skrifuðu undir samninginn í dag. Mynd/ Félags- og tryggingamálaráðuneytið.
Félags- og tryggingamálaráðherra og bæjarstjórinn í Hafnarfirði skrifuðu undir samninginn í dag. Mynd/ Félags- og tryggingamálaráðuneytið.
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra og Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, undirrituðu í dag samning um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis á Völlunum í Hafnarfirði. Áætlað er að heimilið verði tilbúið til notkunar haustið 2012.

Samkvæmt samningnum mun Hafnarfjarðarbær leggja heimilinu til lóð og annast hönnun og byggingu þess. Félags- og tryggingamálaráðuneytið mun á 40 árum greiða Hafnarfirði hlutdeild í húsaleigu vegna húsnæðisins sem ígildi stofnkostnaðar. Í tilkynningu frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu kemur fram að ráðherra hafi nýlega gengist fyrir lagabreytingu sem heimilar Íbúðalánasjóði að lána sveitarfélögum fyrir öllum byggingakostnaði hjúkrunarheimila og er samkomulagið gert á þeim grunni. Sambærilegur samningur hefur þegar verið gerður um byggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ og unnið er samningsgerð við sjö sveitarfélög til viðbótar. Alls er gert ráð fyrir uppbyggingu 360 hjúkrunarrýma í þessum níu sveitarfélögum.

Félags- og tryggingamálaráðherra sagði við undirritun samningsins í dag að nú væri hafið fyrir alvöru löngu tímabært átak í öldrunarþjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×