Innlent

KK stýrir uppboði til styrktar Bjarkarási

KK verður uppboðshaldari á morgun
KK verður uppboðshaldari á morgun

Tónlistarmaðurinn KK stýrir uppboði sem haldið verður í Góða hirðinum á morgun klukkan hálf fimm síðdegis. Allur ágóði af uppboðinu rennur óskiptur til Bjarkaráss sem er ein af stofnunum Áss styrktarfélags og veitir fötluðu fólki dagþjónustu, hæfingu og vinnu.

Sýnishorn af munum sem boðnir verða upp má sjá með því að smella hér.

Meðal þess sem boðið verður upp er rokkur, dúkkuvagn frá 1960 og tóbakshnífur frá miðri síðustu öld.

Í Bjarkarás kemur fjölbreyttur hópur fullorðins fólks með ólíkar þarfir. Margir þeirra eru í starfsþjálfun af einhverju tagi, aðrir fá aðstoð við að efla félagslega færni og enn aðrir nýta listræna hæfileika sína til sköpunar eða taka þátt í ræktun grænmetis í gróðurhúsinu. Um 50 manns koma í Bjarkarás í viku hverri.

Markmið Góða hirðisins er að stuðla að endurnotkun, minnka sóun og láta gott af sér leiða, því ágóði af sölu í Góða hirðinum rennur til ýmissa góðgerðarmála. Gott samstarfs starfsmanna endurvinnslustöðva og Góða hirðisins við viðskiptavini okkar, sem bæði gefa notaða húsmuni til Góða hirðisins og versla í versluninni, gerir það að verkum að á hverju ári er hægt er að styrkja góð málefni.

Á endurvinnslustöðvum SORPU eru sérstakir nytjagámar þar sem fólk getur losað sig við gamla hluti sem enn hafa óskert notagildi. Þannig má forða hlutum með reynslu og sögu, frá endanlegri förgun og finna þeim nýtt hlutverk í nýju umhverfi hjá nýjum eigendum. Þessir hlutir fara svo í sölu hjá Góða hirðinum og stefnir í að árið 2010 fari rúmlega 800 tonn af munum í endurnotkun með þessum hætti.

Í Góða hirðinum má finna allt milli himins og jarðar. Til dæmis sófa, stóla, borð, skápa, þvottavélar, ísskápa og ýmis önnur raftæki. Einnig eru þar smærri hlutir á boðstólnum eins og bækur, plötur, leikföng, leirtau og ýmsir skrautmunir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×