Lífið

Leifar frá Feneyjadvölinni

Leifar frá Feneyjum Ragnar Kjartansson opnar sýningu á verkum sínum í Hafnarborg á laugardag. Hann segist ánægður með verkin þó mörg þeirra séu hálfkláruð.Fréttablaðið/GVA
Leifar frá Feneyjum Ragnar Kjartansson opnar sýningu á verkum sínum í Hafnarborg á laugardag. Hann segist ánægður með verkin þó mörg þeirra séu hálfkláruð.Fréttablaðið/GVA
Sýning á verkinu Endalokin - Klettafjöll, eftir Ragnar Kjartansson verður opnuð í Hafnarborg nú á laugardag og stendur til 28. febrúar.

Verkið er tvískipt og er annar hluti þess tónlistar- og myndbandsverk sem tekið var upp í Klettafjöllunum og sýnir Ragnar og Davíð Þór Jónsson leika á ólík hljóðfæri á fimm mismunandi sjónvarpsskjáum. Seinni hluti verksins var unninn í Feneyjum þar sem Ragnar málaði listamanninn Pál Hauk Björnsson daglega í hálft ár.

„Þetta er sýning á leifunum af Feneyjagjörningnum. Þetta eru um 150 málverk sem verða til sýnis auk ljósmynda, dagbóka og ýmissa minjagripa þannig að hægt er að fylgjast með ferlinu. Það er dálítið fallegt að sjá hvað dagbókafærslurnar verða þungar og vænisjúkar eftir því sem á líður," segir Ragnar Kjartansson listamaður. Hann segist vera ánægður með málverkin þó mörg þeirra séu hálfkláruð og lýsir sýningunni sem málverkainnsetningu. Aðspurður segir hann ekki erfitt að mála sama myndefnið daglega þar sem rýmið geti verið breytilegt dag frá degi. „Maður fór út og vonaði hið besta en bjóst við hinu versta. Þetta gekk þó betur en maður hafði þorað að vona og það kom mér þægilega á óvart hvað verkið vakti mikla athygli í Feneyjum.

Það komu nokkur hundruð manns í skálann dag hvern og stundum átti ég mjög erfitt með einbeitingu. Listmálun er svolítið heilög og persónuleg athöfn sem er yfirleitt gerð í einveru, en í raun get ég ekki kallað þessar heimsóknir truflun því þetta var sjálfskaparvíti."

Ragnar er þó feginn að vera loks kominn aftur heim en segir dvölina í Feneyjum hafa verið hið besta kreppuráð. „Það er gott kreppuráð að dvelja í borg eins og Feneyjum, þar var allt svo dýrt þannig að mér fannst hressandi að koma aftur til Reykjavíkur." Vídeóverkið Endalokin - Klettafjöll verður sýnt í fyrsta sinn eftir að tvíæringnum lauk og helgina eftir verður það einnig sýnt á Sundance-kvikmyndahátíðinni. Ragnar verður viðstaddur hátíðina og segist hlakka mikið til. „Ég er farinn að hlakka geðveikt mikið til. Ég vona að ég hitti Robert Redford sjálfan á meðan ég er þarna, svo ætla ég bara að vappa um og reyna að fá eiginhandaráritanir hjá sem flestum," segir Ragnar og hlær. Opnunin í Hafnarborg er klukkan 15.00. - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.