Innlent

Niðurskurður á Vogi: Bitnar verst á þeim veikustu

Vogur.
Vogur.

Þeir sem hafa áður sótt sér aðstoð vegna vímuefnavanda á Vogi, svokallað endurkomufólk, þurfa að snúa sér til göngudeildar SÁÁ í Von við Efstaleiti til að fá aðstoð við að útbúa beiðni um vistun. Þetta kemur fram á heimasíðu SÁÁ en þar segir að biðlistar muni lengjast og veikustu sjúklingarnir muni fara verst út úr niðurskurði sem blasir við meðferðarstofnuninni.

Eftir að fjárlög ríkisstjórnarinnar voru samþykkt rétt fyrir áramót varð endanlega ljóst að framlög til sjúkrareksturs SÁÁ munu minnka um 13 prósent á 2 árum. Það þýðir að spara þarf um 70 milljónir króna á árinu 2010.

„Slíkt verður ekki gert nema með því að skerða þjónustuna á Sjúkrahúsinu Vogi um mikinn mun. Starfsfólk SÁÁ hefur þegar hafist handa við að breyta starfseminni. Megin breytingarnar sem sjúklingarnir munu finna er að biðlistar munu lengjast og erfiðara verður fyrir endurkomufólk að komast á Vog," segir í tilkynningu frá Vogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×